Lögmaðurinn Anna Þórdís Rafnsdóttir hefur hafið störf hjá Advania þar sem hún mun veita fyrirtækjum ráðgjöf í stafrænni stefnumótun.

„Hlutverk stjórnendaráðgjafa er að hjálpa fyrirtækjum á hinni stafrænu vegferð sem felur meðal annars í sér skipulagsbreytingar,“ segir Anna Þórdís sem síðustu tvö árin hefur stýrt verkefnum í stafrænni stefnumótun fyrirtækja hjá IESE viðskiptaskólanum í Barcelona.

„Maðurinn minn, Einar Þór Steindórsson, fór þangað í MBA nám, og var ég svo heppin að fá óvænt tækifæri til að vinna við skólann við þetta svið og varð ég alveg heilluð. Þar var ég að vinna með nokkrum stórum alþjóðlegum fyrirtækjum sem eru að umbreyta þeim iðnaði sem þau starfa í með stafrænum lausnum. Það hefur sýnt sig að þau fyrirtæki sem skara fram úr í stafrænni umbreytingu eru einmitt þau sem ekki bara bæta nýju tækninni við núverandi skipulag og lausnir heldur breyta innviðum, eins og stjórnarháttum, hugarfari og menningu innan fyrirtækisins í leiðinni.“

Áður en Anna Þórdís fór utan hafði hún starfað hjá Mörkinni lögmannsstofu, m.a. við ráðgjöf um stjórnarhætti fyrirtækja, en eftir að hún hafði lokið mastersnámi í lögfræði hér heima tók hún LL.M. gráðu í viðskiptarétti í New York. Í kjölfar þess stofnaði hún ásamt fleirum upplýsinga- og skjalastjórnunarfyrirtækið Vergo sem selt var árið 2015.

„Ég var með hugmyndir sem brunnu með mér eftir að við komum heim frá New York, þar sem ég hafði kynnst ýmsum kerfum sem auðvelda starf lögmanna til muna,“ segir Anna Þórdís sem fannst vanta slík kerfi hér á landi.

„Þá vildi svo skemmtilega til að góðir vinir mínir höfðu verið með svipaðar hugmyndir í maganum. Við ákváðum að sameina krafta okkar og byggja upp kerfi, sem inniheldur ýmiss konar upplýsingastjórnun og annað sem hjálpar til að mynda við rekstur lögmannstofu.“

Utan vinnu fer mestur tími þeirra hjóna nú í að njóta samvista með dætrum þeirra tveimur sem eru eins og þriggja ára gamlar.

„Þær eru á mjög skemmtilegum aldri, og er fjölskyldulífið svona aðaláhugamálið þessa dagana, en svo höfum við mjög gaman að því að ferðast og svo auðvitað borða góðan mat,“ segir Anna Þórdís sem rifjar upp fjölmörg tækifæri til þess hvors tveggja meðan á dvölinni í Katalóníu stóð.

„Andrúmsloftið þarna er mjög afslappað og fólk er ekki mikið að stressa sig. Maður þurfti fljótt að skilja að maniana, eða á morgun, þýddi til dæmis ekkert endilega á morgun.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .