Mossack Fonseca, lögfræðistofan í þungamiðju Panamaskandalsins mun hætta allri starfsemi í lok mars að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Stofan komst í sviðsljósið þegar 11,5 milljónum skjala hennar var lekið í fjölmiðla í apríl 2016 en í þeim kom meðal annars fram að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði átt félag í skattaskjóli.

Dvínandi orðspor, fjölmiðlaherferð, fjárhagslegt umsátur og óhefðbundnar aðgerðir yfirvalda í Panama hafa valdið óafturkræfum skaða að sögn félagsins.

Í nóvember var greint frá því lögfræðistofan hefði sagt viðskiptavinum að hún hefði þurft að draga umtalsvert úr fjölda starfsmanna vegna vegna „óhagstæðs viðskiptaumhverfis.“