Borgarráð hefur samþykkt að veita Mjólkursamsölunni ehf. (MS) vilyrði fyrir lóð á Hólmsheiði við Suðurlandsveg. Lóðin er um 40 þúsund fermetrar að stærð og hyggst fyrirtækið reisa þar 11 þúsund fermetra byggingu fyrir birgðahald, vörudreifingu og skrifstofur á höfuðborgarsvæðinu, með fyrirvara um að deiliskipulag verði samþykkt fyrir lóðina.

MS óskaði eftir því að borgarráð veiti fyrirtækinu vilyrði fyrir lóðinni þann 11. september síðastliðinn. MS starfar nú í um 15 þúsund fermetra leiguhúsnæði að Bitruhálsi 1 sem stendur á rúmlega 65 þúsund fermetra lóð. Vegna breytinga á starfsemi MS telur fyrirtækið húsnæðisþörf þess nú vera 11 þúsund fermetrar.

Staðsetning lóðarinnar á Hólmsheiði verður nánar ákveðin í deiluskipulagi.