Ari Edwald forstjóri MS hafnar fullyrðingum Hálfdáns Óskarssonar, framkvæmdastjóra Örnu, í viðtali í Markaðnum í Fréttablaðinu 10. ágúst síðastliðinn.

Gætu drepið okkur þegar sýndis

„Í viðtalinu segir Hálfdán að MS geti „komið með laktósafríar vörur og undirboðið vörur Örnu þegar MS sýnist. Bara drepið okkur á nokkrum vikum.“

MS hafnar þessum fullyrðingum. MS hefur fagnað nýjum framleiðendum í mjólkuriðnaði. Sú gróska sem á sér stað í greininni er mikið gleðiefni og sem stærsti aðilinn á markaðnum höfum við hjá MS einmitt gætt þess að gefa nýjum framleiðendum svigrúm þegar komið er fram með nýjar vörur og vöruflokka með því að fara ekki sjálf inn á viðkomandi svið,“ segir Ari í yfirlýsingu.

Undirboð lögbrot fyrir MS

Segir þar jafnframt að undirboð á vörum sem MS verðleggur sjálft væri lögbrot þar sem um markaðsráðandi fyrirtæki sé að ræða. Ákvæði samkeppnislaga þess efnis gildi þó ekki um smærri framleiðendur.

Jafnframt gagnrýnir Ari fullyrðingu Hálfdáns að MS hafi komið með laktosafría léttmjólk á markað „um leið“ og MS hafi frétt af því að Arna væri að fara af stað með sína framleiðslu. Segir hann þetta einfaldlega vera rangt, heldur hafi MS verið með laktósafría léttmjólk í þróun í tvö ár áður en Arna hóf starfsemi.

MS ákvað að þróa ekki fleiri laktósafríar vörur

„Þegar Arna hóf rekstur og ljóst var að þau hefðu í hyggju bjóða fram fleiri tegundir af laktósafríum vörum ákvað MS að fara ekki út í frekari þróun eða framleiðslu á vörum sem Arna framleiðir, einmitt til að nýr og smærri framleiðandi hefði þarna svigrúm til nýsköpunar á markaði,“ segir Ari.

Segir hann það hag allra að sjálfstæðum mjólkurframleiðendum farnist sem best, það er bæði MS, félagi sem sé í eigu íslenskra kúabænda, sem selur þeim hrámjólk og neytendanna sjálfra sem njóti fjölbreyttra mjólkurvara.

Að lokum segir Ari að hann langi að óska Hálfdáni og fyrirtækinu Örnu áframhaldandi góðs gengis og velfarnaðar.