Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að sekta Mjólkursamsöluna um tæplega milljarð króna fyrir meinta misnotkun á markaðsráðandi stöðu sinni verður áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Mjólkursamsölunni. Viðskiptablaðið fjallaði um þetta í dag.

MS telur að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins byggi á rangri túlkun á samspili samkeppnislaga og búvörulaga. Þá hafi eftirlitið dregið rangar ályktanir af þeim viðskiptum sem rannsökuð voru.

Helst telur MS að rangt sé metið hjá Samkeppniseftirlitinu að miðlun MS á hrámjólk hafi fallið utan þess samstarfs sem búvörulög heimila, en samkvæmt þeim er hluti mjólkuriðnaðarins undanþeginn afmörkuðum ákvæðum samkeppnislaga. MS segir að æðra stjórnvald muni skera úr um þetta.

Þá segir einnig að engum hafi verið mismunað þar að ekki hafi verið að ræða sambærileg viðskipti milli aðilanna sem rætt var um. Þau hafi annars vegar verið skilmálalaus sala hrámjólkur til þriðja aðila og hins vegar verið miðlun tiltekins magns hrámjólkur með skýrum notkunarskilmálum.

MS telur þá einnig að hæð sektarinnar sé ekki í samræmi við eðli hins meinta brots fyrirtækisins. Enginn ásetningur hafi verið um hið meinta brot, og fyrirtækið hafi ávallt lagt mikla áherslu á að starfa í samræmi við samkeppnislög þegar ákvæði þeirra eru viðeigandi.