Stefán Sigurðsson tók við starfi forstjóra Fjarskipta (hér eftir Vodafone) í maí á síðasta ári en fram að því starfaði hann sem framkvæmdastjóri VÍB, eignastýringaþjónustu Íslandsbanka. Vodafone hefur verið í örum vexti frá því að félagið var stofnað fyrir um sautj- án árum og hefur teygt anga sína víða í síbreytilegum heimi fjarskiptamarkaðarins. Það býr við stöðuga og harða samkeppni á markaðnum frá Símanum, Nova og 365 en hefur náð mikilli fótfestu, bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði. Að sögn Stefáns mun fjarskiptamarkaðurinn taka töluverðum breytingum á næstu árum en þar vísar hann meðal annars til vaxtar svokallaðar M2M tækni sem gerir tækjum kleift að eiga samskipti sín á milli.

Hvaða tækninýjungar heldur þú að komi til með að breyta rekstri fjarskiptafélaga mest á næstu árum?

„Allar þessar lausnir sem íslensk fjarskiptafyrirtæki bjóða upp á eru alþjóðlegar lausnir sem hafa verið innleiddar annars staðar og það er til reynsla af innleiðingu þeirra. Við tökum þessar lausnir, nýtum þær við íslenskar aðstæður og vonandi erum við að læra af notkun þeirra annars staðar. Það eru undirliggjandi einhverjir grunninnviðir eins og fastlínu- og farsímakerfið hérna á Íslandi og það mun áfram vera byggt ofan á þessa innviði sem eru til staðar hér í dag. Ég hef það á tilfinningunni að þróunin, þ.e.a.s. þróunin sem lýtur að okkur sem notendum, verði meiri á næstu 10-15 árum heldur en hún hefur verið.

Það sem ég á við þar er t.d. internet hlutanna, þ.e. svokölluð M2M tækni þar sem tæki geta talað við tæki. Þetta mun breyta, held ég, öllu samfélaginu. Auðvitað mun það taka tíma en ég held að þetta muni hafa gríðarlega mikil áhrif hægt og rólega. Við tölum eins og sjálfkeyrandi bílar séu einhver framtíðarskáldsaga en tæknin er faktískt séð komin, þetta er meira orðið spurning um lagalega stöðu og öryggismál. Við erum að tala um mikla hagkvæmni sem skapast á fjölmörgum stöðum. Við erum að vinna t.d. með fyrirtæki sem heitir Controlant og sér um rauntímavöktun á dýrmætum sjávarafurðum. Það er verkefni sem þegar er farið að skapa verðmæti.

Sama hvaða geira þú tekur og hugsar um þá eru möguleikarnir mjög miklir. Það eru endalausir möguleikar til þess að nýta þessa tæknilegu innviði sem við höfum nú þegar til að gera líf okkar einfaldara og spara samfélagslegan kostnað. Heimilistæki munu í auknum mæli verða nettengd og nú þegar eru bílar farnir að vera það. Evrópusambandið er komið með lagasetningu um það að innan sambandsins þurfa að vera símkort í öllum bílum fyrir árið 2018. Það er mjög stutt í að þessi þróun hafi áhrif á daglegt líf flestra. Hlutverk okkar er að bæta bæði lífsgæði og samkeppnishæfni. Þetta mun bæta lífsgæði einstaklinga og samkeppnishæfni fyrirtækja verulega.“

Nánar er rætt við Stefán í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .