Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra segir, að yngra fólk á leigumarkaði sé sá hópur sem á hvað helst á brattann að sækja. Hún segir hins vegar að framundan sé mikil uppbygging á húsnæðismarkaði sem komi til með að hjálpa þessum hópi og öðrum.

„Við höfum séð í félagsvísunum hjá okkur að það fólk sem er í erfiðastri stöðu er á leigumarkaðnum og það er yngra fólkið,“ sagði Eygló í hádegisfréttum RÚV.

„Við höfum lagt áherslu á leigumarkaðinn og þau frumvörp sem ég var að vinna að og voru afgreidd í vor bregðast við stöðu þessa fólks.“

Minnist hún á að ASÍ hyggist nú reisa fjölda íbúða fyrir efnaminni einstaklinga á komandi árum og segir Eygló að bylting sé framundan í húsnæðismálum.

„Ég vildi svo sannarlega óska þess að þetta hefði gengið mjög hraðar en við höfum í vor afgreitt mjög stór mál sem ég hef fulla trú á að muni gerbylta húsnæðismarkaðnum um komandi áratugi.“