Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að fyrir félagsmenn samtakanna sé stöðugt umhverfi lykilforsenda áætlunargerðar og vaxtar inn í framtíðina „Það er stærsta áskorun stjórnmálanna nú um stundir, að finna leiðir til þess að auka hér stöðugleikann,“ segir Sigurður sem segir tvennt skipta mestu máli í því samhengi.

„Annars vegar er það peningastefnan, en hana er verið að endurskoða sem stendur, og við bíðum spennt eftir því hvað kemur út úr þeirri vinnu. Í mínum huga er kristaltært að rót vandans er mikill raunvaxtamunur við útlönd, sem horfa verður á til viðbótar við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Sem þýðir auðvitað að vextirnir verða að lækka, enda leiða háir vextir, eða raunvaxtamunurinn, til innflæðis fjármagns sem á endanum bjagar stöðuna, og leitar svo hratt út þegar ójafnvægi myndast.

Ríkisfjármálin eru svo hitt en Seðlabankinn hefur sjálfur sagt að með góðum samhljómi milli ríkisins og bankans, væru hér forsendur til þess að lækka vexti. Með öðrum orðum ef ríkissjóður sýnir aðhald á hagvaxtarskeiði, og bætir í þegar hagkerfið er að dragast saman, þá gætu vextir verið lægri en ella.“

Sigurður segir að með hliðsjón af þeim hagvexti sem spáð er hér á landi á næstu árum hefðu Samtök iðnaðarins viljað sjá meira aðhald í ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda. „Á árunum 2005 til 2007 var um 5 til 7% afgangur af rekstri ríkissjóðs. Skuldir ríkissjóðs voru minni og vaxtagreiðslurnar þar af leiðandi minni baggi,“ segir Sigurður en nú er gert ráð fyrir um 1,5% afgangi af ríkissjóði. Spurður hvort afgangur þessara ára fyrir hrunið hafi verið nægilegur ef horft er í baksýnispegilinn svarar hann: „Nei, sennilega ekki.“

Kom að einni stærstu útgjaldaákvörðun ríkisins á síðari árum

Í kjölfar þessarar umræðu varð blaðamaður auðvitað að spyrja Sigurð út í aðkomu hans að einni stærstu útgjaldaákvörðun ríkisins á síðustu árum, þegar íbúðaeigendur fengu niðurfærðar skuldir sínar í stórum stíl.

„Það er alveg rétt að til viðbótar við störf mín í bankageiranum, þar sem ég hef starfað í áratug, þá var ég ráðgjafi stjórnvalda í tveimur mikilvægum málum á kjörtímabili. Annars vegar í Leiðréttingunni sem var auðvitað fjármögnuð öðruvísi en með almennum sköttum. Sannarlega var ríkissjóður milliliður í því, en við vitum báðir hvaðan fjármunirnir í þá aðgerð komu,“ segir Sigurður sem hins vegar kom að losun fjármagnshaftanna.

„Leiðréttingin var almenn efnahagsaðgerð sem miðaðist að því að rjúfa þá kyrrstöðu sem hafði myndast eftir efnahagsáfallið 2008, þar sem hagvöxturinn var lítill, fasteignamarkaðurinn var frosinn og fólk hafði litla hvata, og í einhverjum tilfellum neikvæða hvata, til að gera upp sín mál. Árangurinn af henni er ótvíræður og í kjölfarið tók hagkerfið við sér. Aðgerðirnar höfðu áhrif á væntingar fólks, sem gat þá aftur farið að gera áætlanir.“

Mátti sjá stöðuna á fasteignamarkaði fyrir

Aðspurður segir Sigurður að þær aðtæður sem eru nú uppi á fasteignamarkaði hefðu verið fyrirsjáanlegar í kjölfar aðgerða stjórnvalda.

„Það mátti algerlega sjá þær fyrir. Samtök iðnaðarins standa fyrir talningu íbúða tvisvar á ári, á vorin og haustin, og það var löngu ljóst að hér var of lítið byggt. Framboð væri allt of lítið miðað við eftirspurnina. Það er enn skortur á lóðum, sem við sjáum til dæmis af því að öflugir verktakar eru farnir að byggja í sveitarfélögum í kringum höfuðborgarsvæðið, meðal annars í Reykjanesbæ og á Suðurlandi, því þeir fá ekki lóðir á höfuðborgarsvæðinu sjálfu,“ segir Sigurður sem þykir þessi þróun áhugaverð, enda dreifir hún íbúðabyggðinni enn meira.

„Þetta leiðir meðal annars af stefnu um þéttingu byggðar. Þó að hún eigi fyllilega rétt á sér, hefur verið farið of hratt í sakirnar, framboð af lóðum er of lítið og of fáar íbúðir. Eftirspurnin jókst mikið þegar við komum úr niðursveiflunni og það er kristaltært að lóðaskorturinn hefur þrýst fasteignaverði upp. Kosningabaráttan í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hlýtur að miklu leyti snúast um að hér verði aukið framboð á lóðum og meira byggt til þess að mæta þeim skorti sem er til staðar.“

Sigurður nefnir í þessu samhengi nauðsyn góðrar umgjarðar fyrir iðnaðinn. „Áformum stjórnmálamanna um frekari íbúðauppbyggingu þarf auðvitað að fylgja eftir með því að auka skilvirkni i kerfinu, en við höfum séð of mörg dæmi um að afgreiðsla mála hjá byggingaryfirvöldum hefur gengið allt of hægt fyrir sig. Það kostar samfélagið stórfé. Ég held því fram að þetta sé kerfislægur vandi sem þurfi að taka á þannig að orð og efndir fari saman,“ segir Sigurður.

„Í þessu samhengi er áhugavert að skoða embætti ríkisskattstjóra, sem er mikil fyrirmyndarstofnun þegar kemur að samskiptum við borgarana. Fyrir mörgum árum þurftu allir að fylla út skattframtöl á pappír, sem tók heilmikinn tíma. Finna þurfti gögn hér og þar, skrifa þetta allt niður og reikna út og fylla inn.

Í dag er meginþorri landsmanna hins vegar einungis nokkrar mínútur að ganga frá skattframtalinu. Ég sakna þess að það sé ekki meiri nýsköpun hjá hinu opinbera þegar það kemur að þessum þáttum. Þannig væri hægt að spara stórfé með einfaldara regluverki og skilvirkara kerfi. Margar stofnanir gætu svo sannarlega lært af skattinum í því.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .