Lágvöruverðsverslunin Kostur tapaði 250 þúsund krónum á síðasta ári. Er það mun betri niðurstaða en ári fyrr þegar fyrirtækið tapaði 59 milljónum króna. Þetta má sjá í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Samkvæmt rekstrarreikningi félagsins nam rekstrarhagnaður þess 34,1 milljónum króna, en ári fyrr varð tap á rekstrinum sem nam 35 milljónum króna. Fjármagnsgjöld námu nú aftur á móti 34,4 milljónum króna og drógust saman um 5 milljónir króna á milli ára.

Eignir Kosts námu 369 milljónum króna í lok ársins en skuldir voru 383 milljónir króna. Var eigið fé fyrirtækisins því neikvætt um tæplega 14 milljónir króna í árslok, eða svipaða fjárhæð og ári fyrr.

Jón Gerald Sullenberger er stærsti eigandi Kosts, en hann á 46,6% hlut í fyrirtækinu. Þá á Tómas Gerald Sullenberger, sonur Jóns, 32,5% eignarhlut.