Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að það myndi taka lengri tíma að vinda ofan af sjálfri undirmálslánakrísunni vestanhafs heldur en öðrum vandamálum tengdum henni sem ríkja á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ummæli Paulson komu daginn eftir að hann hafði einnig varað við því að lausafjárkrísan á fjármálamörkuðum myndi standa lengur yfir heldur en aðrar sviptingar sem riðið hefðu yfir alþjóðlega fjármálamarkaði á undanförnum tveimur áratugum. Skiptir þá engu máli hvort litið sé til fjármálakreppunnar í Rússlandi, Asíu eða Suður-Ameríku á níunda og tíunda áratugnum, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Paulson að ólíkt öðrum fjármálakrísum sem hann hafi upplifað í starfi sínu hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Goldman Sachs, þá sé ekki hægt að rekja umrótið á fjármálamörkuðum um þessar mundir til vandræða í raunhagkerfinu. "Þessi krísa er afleiðing af slæmum viðskiptaháttum í útlánaveitingum hjá fjármálafyrirtækjum," segir Paulson. Hann bætti því jafnframt við að í ljósi þess að flókið væri að festa nákvæmlega reiður á hversu umfangsmikil undirmálslánakrísan væri á heimsvísu myndi það verða til þess að framlengja lausafjárþurrðina á mörkuðum til lengri tíma en ella.

Bandarísk yfirvöld gera fastlega ráð fyrir því að óvissan í tengslum við undirmálslán á fasteignamarkaðinum muni halda áfram næstu tvö árin eða svo, þar sem mörg slík lán voru tekin á breytilegum vöxtum. Af þeim sökum hvatti Paulson stjórnendur hjá stærstu bandarísku fasteignalánafyrirtækjunum í gær til þess að reyna bera kennsl á vandann og í kjölfarið bjóða upp á endurfjármögnun og annars konar fjárhagsaðstoð til þeirra einstaklinga sem standa frammi fyrir miklum vaxtabreytingum á fasteignalánum sínum.

Á sama tíma og varnarorð Paulson um undirmálslánakrísuna bárust lækkaði gengi Bandaríkjadals gagnvart evrunni sjötta daginn í röð, auk þess sem Samtök fasteignasala vestanhafs spáðu enn frekari samdrætti í sölu íbúðarhúsnæðis þar í landi á árinu. Bandaríkjadalur er nú í sögulegu lágmarki gagnvart evru og lægst fór gengið í 1,3914 Bandaríkjadal um hádegið að bandarískum tíma. Bloomberg-fréttaveitan greinir frá því að orsök þessa megi rekja til væntinga fjárfesta um draga muni úr vaxtamun milli Bandaríkjanna og evrusvæðisins. Gera fjárfestar ráð fyrir skarpri stýrivaxtalækkun hjá Seðlabanka Bandaríkjanna á mánudaginn, en vextir á framvirkum samningum vestanhafs leiða í ljós að 72% líkur eru taldar á því að seðlabankinn muni lækka vexti um 50 punkta.