Munnlegur málflutningur verður fyrir EFTA dómstólnum á morgun þar sem tekist er á um það hvort verðtryggð lán eru lögmæt eða ekki. Milljarðahagsmunir eru í húfi og samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins fylgjast íslensk stjórnvöld náið með þróun mála. Héraðsdómur Reykjavíkur fór fram á ráðgefandi álit vegna málsins.

Í viðtali Viðskiptablaðsins við Bjarna Benediktsson, sem birtist í blaðinu á fimmtudaginn, sagði hann að það væri augljóst að ef til þess kæmi að lánin yrðu dæmd ólögleg yrði það verulegur skellur fyrir fjármálakerfið í landinu en að öllum líkindum viðráðanlegur meðal annars vegna sterkrar eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækjanna.

„Við verðum að fylgjast vandlega með því hvert hið ráðgefandi álit verður og hver niðurstaða dómstóla verður, til þess að lágmarka skaðann ef til þess kæmi að verðtryggingin yrði dæmd ólögleg,“ sagði Bjarn en benti jafnframt  á að það væru skiptar skoðanir á því hver lagaleg staða málsins væri.