Michael O'Leary, forstjóri írska lágfargjaldaflugfélagsins Ryanair greindi frá því í dag að flugfélagið muni ekki gera tilboð í eignir Air Berlin. Líkt og fjallað hefur verið um óskaði þýska flugfélagið eftir greiðslustöðvun fyrr í mánuðinum . Ákvörðunin kom í kjölfarið á því að Etihad Airways sem er stærsti hluthafi Air Berlin ákvað að leggja ekki meira fé til rekstursins.

Í kjölfarið á greiðslustöðvuninni létu forsvarsmenn Ryanair hafa það eftir sér að þýska flugfélagið Lufthansa, Air Berlin og þýsk stjórnvöld ættu í samsæri. Vildu forsvarsmenn Ryanair meina að lánveiting stjórnvalda til að halda rekstri Air Berlin gangandi hafi verið veitt með það að markmiði að Lufthansa gæti sópað upp eignum félagsins. Vildu þeir meina að greiðslustöðvunin hafi verið sett á svið og að lánveitingin væri brot á þýskum og evrópskum samkeppnislögum.

Segir O'Leary að Ryanair muni ekki leggja fram tilboð þar sem söluferlið væri ógagnsætt. „ við hefðum lagt fram tilboð ef söluferlið væri fullkomlega opið. Við ætlum hins vegar ekki að taka þátt í þessu grugguga söluferli," sagði O'Leary á blaðamannafundi í dag.

Bætti forstjórinn því við að Ryanair hefði óskað eftir því að þýsk og evrópsk samkeppnisyfirvöld myndu hefja rannsókn á meintu samsæri milli Lufthansa, Air Berlin og þýskra stjórnvalda. „Það er okkar skoðun að óskað hafi verið eftir greiðslustöðvun til að setja mikinn þrýsting á stjórnmálamenn rétt fyrir þingkosningarnar í september næstkomandi.“