Kaupskil ehf., dótturfélag Kaupþings, hefur selt tæplega 583 milljónir hluta í Arion banka eða 29,18% eignarhlut í bankanum, fyrir ríflega 48,8 milljarða króna. Kaupendurnir eru erlendir sjóðir á borð við Attestor Capital LLP sum mun eiga 9,99% eignarhlut, Taconic Capital Advisor UK LLP, með sama eignarhlut, Sculptor Investments s.a.r.l, félag tengt Och-Ziff Capital Management Group með 6,6% hlut og Goldman Sachs International í gegnum ELQ Investors II með 2,6% hlut.

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir það ánægjulegt að það sé verið að breyta eignarhaldi bankans á þann hátt að það sé ekki lengur félag sem er þrotabú, Kaupskil, sem á þennan eignarhluta í Arion banka. „Það er það sem er óeðlilegt við eignarhald Arion banka. Þetta er mikilvægt skref í átt að því að koma eignarhaldinu fyrir til lengri tíma í höndum annarra og skrá svo hlutabréfin,“ segir Óli Björn.

Eðlilegt að menn spyrji gagnrýnna spurninga

Spurður út í gagnrýni aðila á borð við fyrrum forsætisráðherra á kaupunum segir Óli Björn að hann hafi skilning fyrir því að menn spyrji gagnrýnna spurninga um nýja eigendur. „Það er eðlileg spurning. Menn fá auðvitað svör við því. Þannig að það sé sagt, kemur Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, á fund efnahags- og viðskiptanefndar á miðvikudaginn og veitir okkur upplýsingar og svarar spurningum nefndarmanna. Við höfum síðan farið á leit við Fjármálaeftirlitið og þau munu koma á miðvikudaginn líka,“ segir hann.

„Það er nauðsynlegt fyrir alla að við höfum sem gleggsta mynd af því sem er að gerast,“ bætir Óli Björn við.

Hlutverk FME að meta hæfni til að fara með virkan eignarhlut

Í ítarlegu viðtali Fréttablaðsins við Frank Borsens, stofnanda og eigenda bandaríska vogunarsjóðsins Taconic Capital, kemur meðal annars fram að síðar á árinu hefur Taconic Capital kauprétt á stærri hlut í bankanum en ef að bankinn eignast meira en 10 prósenta hlut í bankanum þarf hann samþykki Fjármálaeftirlitsins til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka. Hann segir að sjóðurinn muni strax fara í ferli með FME hvort að hvort að Taconic Capital fái mögulega að fara með virkan eignarhlut í bankanum. Þó muni sjóðurinn taka ákvörðun hvort að kauprétturinn verði nýttur þegar að því kemur.

Spurður út í þessar vangaveltur segir Óli Björn að það sé hlutverk Fjármálaeftirlitsins að kortleggja og meta hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut. „Fjármálaeftirlitið sinnir þeirri skyldu sinni. Það er allt í eðlilegum farvegi.“