Stjórnendur alþjóðlega bankans Credit Suisse hafa samþykkt að lækka bónusa sína um 40% vegna síhækkandi gagnrýnisradda frá fjárfestum í aðdraganda aðalfundar bankans.

Forstjóri bankans, Tidjane Thiam, hefur auk annarra framkvæmdastjóra boðist til að halda skammtíma- og langtíma bónusgreiðslum fyrir árið 2017 jafnháum og þær voru árin 2015 og 2016, að því er segir í frétt Bloomberg.

Fjárfestar höfðu gagnrýnt áform um að greiða framkvæmdastjórninni 26 milljónir dala í skammtímabónusa og allt að 52 milljónir dala í bónusa til lengri tíma. Fjárfestar segja að bónusarnir séu allt of háir í ljósi þess að bankinn hefur skilað tapi síðustu tvö ár. Þá voru áform um launahækkanir stjórnarinnar gagnrýndar.