Fjármálaeftirlitið samþykkti í dag breytingu Spron í hlutafélag á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki. Spron hefur þar með uppfyllt öll lögformleg skilyrði breytingarinnar og telst því hlutafélag frá og með 1. apríl 2007. Í kjölfar samþykkis Fjármálaeftirlitsins verður nú óskað eftir skráningu í OMX Norrænu kauphöllinni Íslandi.

Spron er alhliða fjármálafyrirtæki sem veitir viðskipta- og fjárfestingarbankaþjónustu til einstaklinga, fyrirtækja og fagfjárfesta á höfuðborgarsvæðinu. Dótturfélög Spron eru Spron Verðbréf, Spron Factoring, Netbankinn, Frjálsi Fjárfestingarbankinn og Curron. Spron rekur 9 útibú á höfuðborgarsvæðinu. Hjá Spron og dótturfélögum starfa um 250 manns.