Formenn Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna segja öll að þeim lítist ágætlega á kosningar 4. nóvember eftir fundi sína með forseta Íslands á Bessastöðum. Ráðherrar Bjartrar framtíðar, Óttarr Proppé og Björt Ólafsdóttir, munu þvert á það sem þau höfðu rætt um við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun, halda áfram að starfa í stjórninni.

Óttarr segist hafa gert tilraun til að láta ríkisstjórnarsamstarf ganga upp við erfiðar aðstæður en Bjarni Benediktsson hefur sagt flokkinn hafa hlaupið til án þess að hafa rætt við sig um stjórnarslit, sem hafi komið honum mikið á óvart.

Óttar segir Bjarta framtíð muni starfa í starfsstjórn að beiðni forseta Íslands fram að kosningum í nóvember eftir fund sinn með Guðna Th. Jóhannessyni á Bessastöðum að því er kemur fram á RÚV . „Ég reikna með því að við gerum það og öxlum ábyrgð á því að ráðuneyti okkar verði ekki höfuðlaus fram að því að ný ríkisstjórn er mynduð,“ sagði Óttarr.

Óttar segir skrýtið að starfa með Sjálfstæðisflokknum

„Við gerum það að beiðni forseta íslands að halda stjórnskipulega hefð og ég er sammála forsetanum um að það sé skylda okkar alþingismanna að manna þessa pósta stjórnsýslunnar á meðan er ekki er starfhæf ríkisstjórn í landinu.“

Óttarr segir það skrýtna tilhugsun að flokkurinn myndi mynda aðra ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar en hann sagðist hafa gert tilraun til að láta ríkisstjórnarsamstarfið ganga upp við erfiðar aðstæður með flokknum hingað til. „Það er náttúrulega dálítið skrýtin tilfinning að sitja í starfsstjórn," sagði Óttarr. „[E]ftir að hafa gert tilraun til að láta ríkisstjórnarsamstarf ganga upp við erfiðar aðstæður.“

Viðreisn reyndi að mynda aðra ríkisstjórn

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar sagðist hins vegar ekki geta svarað beiðni forsetans strax, það verði ekki gert fyrr en eftir helgi að því er fram kemur á RÚV .

„Við þurfum að fara aðeins yfir þetta. Við þurfum að vega þetta og meta. En nú þurfum við að átta okkur á því að starfsstjórn er allt öðruvísi en venjuleg ríkisstjórn. Þessu ríkisstjórnarsamstarfi er lokið,“ sagði Benedikt en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hafði Ráðgjafaráð flokksins ályktað að flokkurinn ætti ekki að sitja í ríkisstjórn með þeim Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra og Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra.

„Við erum ekki lengur að tala um neitt samstarf af því tagi, það verða væntanlega ekki einu sinni haldnir ríkisstjórnarfundir á þessu tímabili, en ég sagði forsetanum að ég mundi gefa honum endanlegt svar um þetta eftir helgina.“ Benedikt sagðist ekki hafa boðið Framsóknarflokknum sæti í ríkisstjórninni en hann hefði hins vear rætt við marga aðra flokka um hvort flötur væri á að mynda ríkisstjórn án kosninga.

Sigurður Ingi segir Viðreisn hafa snúið frá öllum sínum stefnumálum

Sigurður Ingi Jóhannesson formaður Framsóknarflokksins segir flokkinn vera einhuga um að taka ekki sæti Bjartrar framtíðar í ríkisstjórninni sem flokkurinn hefði yfirgefið að því er RÚV greinir frá. „Við fórum yfir þetta á tveimur þingflokksfundum í gær og það var algjör samhugur um að við vildum ekki fara inn í þessa stjórn sem hafði allt í einu opnast einhver sæti í,“  segir Sigurður Ingi.

„Það kom fram í stjórnarmyndunarviðræðunum í desember og janúar að við myndum aldrei getað tekið sæti í slíkri ríkisstjórn með Viðreisn nema að Viðreisn myndi snúa algjörlega við nánast öllum sínum stefnumálum.

Nú gerðu þeir það reyndar en ég er ekki viss um að þeir hefðu gert það ef við hefðum setið við borðið. Þannig að við sáum ekki neinn flöt á því nema taka algjörlega upp stefnu okkar Framsóknarmanna og við þessar aðstæður held ég að það hafi verið útilokað.“

Hvort tveggja Benedikt og Sigurður Ingi, sem og Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segjast litast ágætlega á 4. nóvember sem dagsetningu kosninganna, en það er sú dagsetning sem forsætisráðherra stakk upp á eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun.