Helgi Anton Eiríksson, sem nýlega var ráðinn forstjóri Iceland Seafood, segir að það verði áhugavert að fylgjast með því hversu lengi Landsbankinn hyggist halda eignarhluti sínum í Icelandic Group. Vestia, eignaumsýslufélag Landsbankans, tilkynnti fyrir helgi að félagið hefði tekið yfir Icelandic Group. Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til er að breyta 29 milljarða króna skuld Icelandic við Landsbankans í hlutafé.

"Í sannleika sagt veit ég ekki með hvaða hætti þetta hefur áhrif á okkur en vissulega undirstrikar þetta þá skrýtnu stöðu sem er á Íslandi þar sem sum fyrirtæki eru komin í ríkiseigu og önnur eru einkarekin," segir Helgi Anton. Aðspurður hvað annað aðgreinir þessi tvö félög, Icelandic Group og Iceland Seafood International, segir Helgi: "Það er kannski ekki mitt að leggja mat á það, en eins og þetta lítur út fyrir mér þá erum við fyrst og fremst í kaupum, sölu og dreifingu á sjávarafurðum víða um heim á meðan stór hluti starfsemi IG er í rekstri fiskréttarverksmiðja víða í Evrópu og í Bandaríkjunum."

Til einföldunar þá er Icelandic Group sprottið úr Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna (SH) en Iceland Seafood er reist á grunni SÍF.

Helgi segir að íslenskar sjávarafurðir séu rétt undir helmingur af allri sölu fyrirtækisins. Fyrir utan Ísland kaupi þeir mest frá Noregi en einnig sæki þeir hráefni frá Asíu.

Breti stærsti hluthafinn

Benedikt Sveinsson, fyrrum forstjóri, hefur tekið við stöðu stjórnarformanns Iceland Seafood. Þá hefur verið gengið formlega frá kaupum International Seafood Holdings á meirihluta í Iceland Seafood International. Tilkynnt var síðastliðið haust um kaup Bretans Mark Holyoake á hlut Kjalars, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, á stærstum hluta í Iceland Seafood. Nú hefur verið gengið frá þessum kaupum. Félag Holyoake fer með 73% eignarhlut og Benedikt Sveinsson, fráfarandi forstjóri og núverandi stjórnarformaður fyrirtækisins og Bjarni Benediktsson, framkvæmdastjóri Iceland Seafood á Íslandi eiga afganginn.