Elon Musk, forstjóri Tesla Motor Company hefur tilkynnt að fyrirtækið hyggist byrja að taka við pöntunum á tveimur nýjum útgáfum af Tesla Model 3 bíl fyrirtækisins, eins og hann hafði lofað þegar framleiðsla bílsins nálgaðist markmið.

Samkvæmt nýrri skýrslu virðist vera sem fyrirtækið geti nú framleitt um 500 bíla á dag af Model 3 bílnum, sem fyrirtækið hefur veðjað á að geti orðið almannaeign. Til þess þarf fyrirtækið þó að ná að framleiða 5.000 bíla á viku, en því markmiði hefur verið frestað aftur og aftur vegna tæknilegra örðugleika sem valdið hefur sumum fjárfestum áhyggjum.

Er sú framleiðni talin nauðsynlegt til að bílaframleiðandinn verði ekki bara stöðutákn hinna ríku og frægu sem hafa keypt dýrari lúxusútgáfur af bílnum heldur almannaeign.

Með aukinni framleiðni virðist þó Musk vera tilbúinn að bæta við tveimur nýjum útgáfum af Model 3 bílnum, það er fjórhóladrifnum bílum með mismunandi gerðum af rafmagnsmótorum , annars vegar fyrir hraða og hins vegar fyrir drægni . Auk þess að nú verður hægt að fá bílana með hvítu mælaborði og sætum, þó sá valkostur verði í takmörkuðu upplagi.

Hældi Elon Musk sér af því í síðasta mánuði að á seinni helmingi þessa árs myndi sjóðstreymi fyrirtækisins loks verða jákvætt. Hins vegar telja ýmsir greinendur að því er CNBC segir frá, að fyrirtækið þurfi fyrr en seinna að sækja sér aukið fjármagn á markaðinn. Hefur Goldman Sachs spáð því að fyrirtækið þurfi allt að 10 milljarða dala af auknu fjármagni að halda fram til 2020.