Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri Tesla, sendi frá sér tíst í gærkvöldi þar sem hann hrósaði „Skortsalaauðgunarstofnun“ (Shortsellers Enrichment Commission) fyrir vel unnin störf, en upphafsstafir hinnar skálduðu stofnunar eru þeir sömu og hjá verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (Securities and Exchange Commission).

Auk hróssins fyrir vel unnin störf sagði Musk nafnbreytinguna „hitta beint í mark“.

Musk hefur átt í útistöðum við eftirlitið eftir að hann sendi frá sér tíst í ágúst þess efnis að hann væri að íhuga að afskrá félagið af markaði, og hefði tryggt til þess fjármögnun. Musk hafði áður verið harðorður í garð skortsala, sem höfðu veðjað á að bréf í Tesla myndu lækka.

Í kjölfar tístsins hækkuðu bréfin töluvert, en í ljós kom síðar að fjármögnunin var langt því frá tryggð. Bréf í félaginu hafa síðan fallið töluvert, og eru nú um fjórðungi lægri en þau voru í kjölfar tístsins.

Fjárfestar stefndu Musk í kjölfarið, og verðbréfaeftirlitið hóf rannsókn á málinu, og eftir að hafa neitað að semja um málalyktir við eftirlitið í síðustu viku, komst Musk loks að samkomulagi við það nú á mánudag, sem meðal annars fól í sér að hann segði af sér stjórnarformennsku rafbílaframleiðandans, og greiddi 20 milljón dollara sekt.

Teflir samkomulaginu í tvísýnu
Samkomulagið krefst hinsvegar staðfestingar dómara til að binda enda á málið, svo Musk er ekki laus allra mála enn. Sérfræðingar segja í samtali við Wall Street Journal tístið hugsanlega brjóta skilmála samkomulagsins, sem fól meðal annars í sér að Musk myndi hvorki viðurkenna né neita brotinu.

„Eftirlitið og lögfræðingar Musk munu ræða saman í síma áður en dagurinn er úti. Þetta teflir samkomulaginu tvímælalaust í tvísýnu.“ Er haft eftir fyrrum saksóknara hjá verðbréfaeftirlitinu.