Í dag hófust viðskipti með hlutabréf Kviku banka hf. (auðkenni: KVIKA) á Nasdaq First North Iceland. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur skráning Kviku á First North markaðinn verið til skoðunar hjá félaginu frá því í haust. Í byrjun vikunnar bárust fréttir um að ákveðið hefði verið að taka bréf félagsins til viðskipta í kauphöllinni í dag.

Fyrsta félagið í kauphöllina í ár

Kvika banki (Kvika) tilheyrir fjármálageiranum og er fyrsta félagið sem tekið er til viðskipta á Nasdaq Iceland í ár. Félagið er ellefta félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic í ár, sem er sameiginleg þjónusta Nasdaq í Kaupmannahöfn, Helsinki, Íslandi og Stokkhólmi.

Kvika er viðskiptabanki sem leggur áherslu á fjárfestingabankastarfsemi segir í fréttatilkynningu um skráninguna. Tekjusvið bankans eru eignastýring, fyrirtækjaráðgjöf, fyrirtækjasvið og markaðsviðskipti. Kvika veitir fyrirtækjum, fjárfestum og einstaklingum víðtæka fjárfestinga- og eignastýringarþjónustu, auk valinnar sérhæfðrar bankaþjónustu.

Eignastýring Kviku hefur áunnið sér traust orðspor og býður upp á þjónustu í öllum helstu eignaflokkum, þ.m.t. skuldabréfum, hlutabréfum og sérhæfðum fjárfestingum, á innlendum og erlendum mörkuðum segir þar jafnframt. Kvika er með aðild að kauphöll Nasdaq á Íslandi. Höfuðstöðvar bankans eru í Reykjavík.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Rökrétt næsta skref

„Það er ánægjulegt að vera komin á Nasdaq First North,“ segir Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku.

„Það var rökrétt næsta skref fyrir okkur að skrá bankann á markað þar sem við höfum undanfarið orðið varir viðmikinn áhuga á hlutabréfum hans og framtíðaráætlunu. Nasdaq First North eykur gagnsæi í verðmyndun og  seljanleika með hlutabréfin sem auðveldar bæði stórum og smáum fjárfestum kleift að eiga viðskipti með skilvirkum hætti.“

Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland fagnar skráningu Kviku á First North markaðinn. „Skráning Kviku er merkileg fyrir þær sakir að félagið er það fyrsta til að vera skráð á íslenska markaðinn í ár, en einnig er félagið fyrsti bankinn sem er skráður á markað frá fjármálakreppunni,“ bendir Páll á.

„Kvika er velkomin viðbót við vaxandi First North markaðinn á Íslandi. Við hlökkum til að vinna með félaginu og óskum starfsfólki og hluthöfum til hamingju.” Kvika banki er viðurkenndur ráðgjafi á Nasdaq First North og umsjónaraðili skráningarinnar.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Um Nasdaq First North

Nasdaq First North er skilgreint sem markaðstorg fjármálagerninga (e. Multilateral Trading Facility) rekið af Nasdaq Nordic kauphöllunum (Nasdaq First North Denmark er skilgreint sem hliðarmarkaður). Markaðurinn hefur ekki lögbundinn sess sem skipulegur verðbréfamarkaður innan Evrópusambandsins.

Félög á Nasdaq First North lúta reglum Nasdaq First North en ekki þeim lagalegu kvöðum sem fylgja því að skrá fyrirtæki á skipulegan verðbréfamarkað. Áhættan við slíka fjárfestingu getur verið meiri en á Aðalmarkaði.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Um Nasdaq

Nasdaq (Nasdaq:NDAQ) er leiðandi á alþjóðavísu í þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, kauphallartækni, eftirlits, skráninga, upplýsingaþjónustu og þjónustu við skráð fyrirtæki í sex heimsálfum.

Nasdaq gerir viðskiptavinum sínum kleift að skipuleggja, hagræða og framkvæma framtíðarsýn sína í viðskiptum af öryggi, með margreyndri tækni sem veitir gagnsæi og innsýn í nútíma alþjóðlega fjármálamarkaði.

Nasdaq er frumkvöðull í rafrænum kauphallarviðskiptum, en tækni þess er notuð á yfir 90 mörkuðum í 50 löndum og knýr um það bil ein af hverjum 10 viðskiptum í heiminum. Nasdaq er heimili meira en 3,900 skráðra fyrirtækja að markaðsvirði yfir 12 billjón Bandaríkjadala.