Vegna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (HHÍ) um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða hefur Náttúrufræðistofnun Íslands sent frá sér tilkynningu þar sem „nokkurs misskilnings“ gæti í umfjöllun HHÍ.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar er fjallað um stöðu hvala á válista, bæði hér við land og á heimsvísu. Við þau skrif vill Náttúrufræðistofnun gera athugasemdir og segir eftirfarandi:

„Í skýrslunni er fullyrt að auka megi útflutningstekjur Íslendinga með því að auka veiðar á hrefnu og langreyði. Samkvæmt Hafrannsóknastofnun er núverandi veiðiálag á þessum tveimur tegundum ekki talið hafa neikvæð áhrif á stofnstærð þeirra. Í niðurstöðukafla skýrslu Hagfræðistofnunar segir:

„Veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar miðar að því að hámarksnýting náist þegar hvalastofnar eru veiddir niður í 60% af hámarksstærð (jafnvægisstærð fyrir tíma hvalveiða). Stofnar hrefnu og langreyðar við Ísland eru taldir vera af svipaðri stærð í dag og fyrir tíma hvalveiða, langreyðastofninn jafnvel stærri. Ef stofnar hrefnu og langreyðar væru 40% minni, gæti verðmæti afla Íslendinga aukist um á annan tug milljarða króna á ári – og það eingöngu vegna beins afráns.“

Í dag er langreyðarstofninn talinn vera um 40.000 dýr og er í sögulegu hámarki samkvæmt úttektum á stofnþróun á 20. öld. Langreyður er talin í nokkurri hættu (VU) á heimsválista IUCN en hvorug tegundin er í hættu (LC) á íslenska válistanum. Náttúrufræðistofnun Íslands vekur athygli á því að fækkun af þeirri stærðargráðu sem hér er nefnd, myndi breyta stöðu langreyðar á válista og tegundin yrði metin í hættuflokk við Ísland. Til að setja hlutföllin í tölulegt samhengi þá þýðir framangreint að veidd yrðu allt að 16.000 dýr.“

Um þann hluta skýrslunnar sem lítur að búrhval segir:

„Búrhvalur er metinn í nokkurri hættu (VU) á heimslista IUCN en á svæðisbundum válista fyrir íslensk spendýr, sem unninn var í samvinnu við sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar, er tegundin í flokknum gögn vantar (DD). Samkvæmt umfjöllun um tegundina í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands má skilja að tegundin sé ekki í hættu og veiðar á henni því ákjósanlegar. Sú er ekki raunin heldur skortir gögn til að unnt sé að meta ástand stofnsins við Ísland með vissu.“