Árleg ráðstefna Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands var haldin í Norræna húsinu á miðvikudag undir formerkinu Alþjóðasamvinna á Krossgötum: Hvert stefnir Ísland? Var ráðstefnan haldin í samstarfi við Norðurlönd í fókus, utanríkisráðuneytið, Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Fjölmargar málstofur voru á ráðstefnunni, undir yfirskriftunum: Áskoranir framtíðar: Ungt fólk til áhrifa; Ímynd Norðurlanda: Friður og jafnrétti?; Framtíðin: Veðjað á voldug ríki eða alþjóðastofnanir?; Ísland, Bandaríkin og NATO á 21. öld; Þátttaka í samvinnu Evrópuríkja og framtíðarsamskiptin við Bretland; Hernaðarumsvif á Norðurslóðum; Litið til austurs: Samskipti Íslands og Asíu, og loks Samantekt: Ísland í samfélagi þjóðanna. Á eftir var haldin móttaka í anddyri Norræna hússins.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, var íbygginn á svip undir ræðum annarra, en hann hélt sjálfur erindi um hvort veðja ætti á að framtíðin tilheyrði voldugum ríkjum eða alþjóðastofnunum.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Meðal góðra gesta á ráðstefnunni var Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs, Hjálmar W. Hannesson og Sigríður Snævarr fyrrverandi sendiherrar, og eiginmaður þeirra síðarnefndu, Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Fjölmargir mættu á ráðstefnuna sem stóð yfir frá 9 til 18, þar á meðal María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var ein þeirra sem ræddu um áhrif ungs fólks í pallborðsumræðum, en með henni á myndinni er Jökull Ingi Þorvaldsson, fulltrúi úr ritstjórn skuggaskýrslu barna til barnaréttarnefndar SÞ.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur og skemmtikraftur, var einn þeirra sem ræddu um áskoranir framtíðar undir liðnum Ungt fólk til áhrifa á ráðstefnunni.