N1 hefur hækkað um 11,48% í 489 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Í gær greindi Viðskiptablaðið frá því að Samkeppniseftirlitið hafi samþykkt kaup félagsins á öllu hlutafé í Festi hf.

Af sáttinni leiðir að N1 verður nú heimilt að taka við rekstri Festi sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, Kr, Nóatúns og Kjarvals, ELKO og vöruhótelið Bakkann.

Áætluð samlegðaráhrif af sameiningu N1 og Festi eru á bilinu 500-600 milljónir króna og munu þau koma fram á næstu 12 til 18 mánuðum.

Hagar hafa einnig hækkað í viðskiptum dagsins eða um 5,88% í 145 milljóna króna viðskiptum.