Olíuverslun N1 hagnaðist um 1.190 milljónir króna á síðasta ári. Þetta er talsverður viðsnúningur á milli ára en þá nam hagnaðurinn 4,5 milljörðum. Af hagnaðinum í fyrra námu áhrif af fjárhagslegri endurskipulagningu N1 4,8 milljörðum króna. Kröfuhafar tóku yfir rekstur N1 á síðasta ári. Hermanni Guðmundssyni, forstjóra fyrirtækisins, var sagt upp um mitt síðasta ár og var Eggert Benedikt Guðmundsson, þá forstjóri HB Granda, ráðinn í hans stað.

Tekjur aukast í skugga álaga

Fram kemur í uppgjöri N1 sem birt var nú síðdegis að rekstrartekjur námu 60.258 milljónum króna sem er 9,8% aukning á milli ára. Rekstrarhagnaður (EBTIDA) nam 2.650 milljónum króna samanboriðvið 2.108 milljónir í hittifyrra. Þetta svarar til 25,7% meiri rekstrarhagnaði í fyrra en árið 2011. Á móti voru fjármagnsliðir neikvæðir um 312 milljónir króna í fyrra en voru jákvæðir um 302 milljónir árið 2011.

Fram kemur í uppgjörinu að auknar tekjur megi rekja til hærra olíuverðs og aukinna opinberra gjalda á eldsneyti.

Þá segir í uppgjörinu að fjármagnsliðir voru neikvæðir um 312 mkr á árinu , en voru jákvæðir um 302 mkr á árinu 2011.

Bókfært verð eigna N1 námu 27.768 milljónum króna um síðustu áramót samanborið við 26.327 milljónir ári fyrr. Eigið fé í lok ársins nam 14.514 milljónum króna en það nam 13.323 milljónum króna í lok árs 2011. Á móti námu heildarskuldir og skuldbindingar 13.255 milljónum króna. Handbært fé frá rekstri nam 2.540 milljónum króna. Það er um tvöfalt meira en árið 2011 þegar handbært fé frá rekstri nam 1.279 milljónum króna.

Eiginfjárhlutfall var 52,3% um áramótin síðustu.