Stjórn N1 hefur ákveðið að hefja sáttaviðræður við Samkeppniseftirlitið vegna kaupa félagsins á öllu hlutafé í Festi hf að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Viðskiptin eru meðal annars háð skilyrðum um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þann 31. október 2017 skilaði félagið inn samrunaskrá til Samkeppniseftirlitsins sem hefur nú samkeppnisleg áhrif samrunans til rannsóknar.

Samkeppniseftirlitið sendi N1 andmælaskjal, sem liður í málsmeðferð þess á samrunanum. Skjalið felur í sér frummat Samkeppniseftirlitsins en felur ekki í sér bindandi stjórnvaldsákvörðun. Í skjalinu er frumniðurstöðu eftirlitsins lýst en hún er sú að samruninn raski samkeppni og verði ekki samþykktur af Samkeppniseftirlitinu án skilyrða.

N1 er ósammála niðurstöðu andmælaskjalsins og mun skila inn athugasemdum við andmælaskjalið við lok tilskilins frests. Hefur stjórn félagsins ákveðið að hefja sáttaviðræður við Samkeppniseftirlitið þegar athugasemdum félagsins hefur verið skilað.

Niðurstöður Samkeppniseftirlitsins eru væntanlegar 16. mars 2018 nema eftirlitið óski eftir viðbótargögnum til rannsóknar en þá væru niðurstöður væntanlegar þann 18. apríl 2018. Gangi viðskiptin eftir er gert ráð fyrir að þeim ljúki í lok 2. ársfjórðungs 2018.