N1 hf. og SF V slhf. undirrituðu í dag samkomulag sem tekur á helstu skilmálum vegna fyrirhugaðra kaupa N1 hf. á öllu útgefnu hlutafé í Festi hf, sem rekur meðal annars Krónuna, Nóatún, ELKO og Kjarval. Þetta kemur fram í tilkynningu N1 til Kauphallarinnar.

Festi rekur alls 28 verslanir undir merkjum Krónunnar, ELKO, Nóatún og Kjarval en félagið á einnig Bakkann, vöruhús. Festi á 17 fasteignir sem eru annað hvort í leigu til verslana félagsins eða þriðja aðila. Heildarstærð fasteignanna er um 71.500 fermetrar. Heildarvelta Festi var rúmir 39 milljarðar króna á rekstrarárinu. Heildarvirði Festis er 37,9 milljarðar samkvæmt samkomulagi aðilanna, en kaupverðið mun ráðast af skuldastöðu Festis við afhendingu. Gert er ráð fyrir að EBITDA félagsins verði um 3,3 milljarðar á árinu sem þýðir að kaupverði félagsins verði rúm ellefuföld EBITDA.

Aðilar samningsins munu í framhaldi af undirrituninni hefja samningaviðræður um kaupin með það að markmiði að komast að samkomulagi um efni endanlegs kaupsamnings. Samningaviðræðurnar skulu byggja á forsendum og skilmálum samkomulagsins að teknu tilliti til niðurstaðna áreiðanleikakönnunar kaupanda.

„Samkomulagið felur í sér að heildarvirði Festi er 37,9 milljarðar króna en endanlegt kaupverð hlutafjár mun ráðast af skuldastöðu félagsins við afhendingu. Gera áætlanir yfirstandandi rekstrarárs ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (,,EBITDA") verði um 3.340 milljónir króna og eru 2.125 milljónir króna vegna rekstrarfélaga Festi en 1.215 milljónir króna vegna fasteignastarfsemi þess. Heildarvirði félagsins getur tekið breytingum vegna afkomu rekstrarfélaga Festi. Reynist EBITDA rekstrarfélagana fyrir rekstrarárið sem lýkur 28. febrúar 2018 vera hærri en 2.125 milljónir króna skal kaupverð hækka en þó aldrei meira en um 1 milljarð króna verði EBITDA 2.250 milljónir króna eða hærri. Eins og áður hefur verið tilkynnt er spá stjórnenda N1 að EBITDA félagsins verði á bilinu 3.500 til 3.600 milljónir króna á árinu 2017 og er því á ætluð EBITDA sameinaðs félags á yfirstandandi rekstrarári um 6.850 til 7.050 milljónir króna en ekki hefur verið tekið tillit til samlegðar í framangreindum tölum.

Kaupverð verður greitt annars vegar með 76.086.957 hlutum í N1 á genginu 115, eða sem nemur 8.750 milljónum króna og hins vegar með yfirtöku skulda og lántöku. Seljendur skuldbinda sig til að hvorki selja né framselja helming af þeim hlutum í N1 sem þeir fá afhenta fyrir 31.12.2018. Komi til viðbótargreiðslu vegna betri afkomu Festi hf. mun sú greiðsla vera í formi hluta í N1 á genginu 115 en þeir hlutir munu jafnframt falla undir sölubann fram til 31.12.2018,“ segir meðal annars í tilkynningunni.