N1 hefur skrifað undir samning um kaup á rekstri Gúmmívinnslunnar á Akureyri og hefur þegar tekið yfir rekstur verkstæðisins sem verður áfram starfrækt á sama stað, að Réttarhvammi 1, á Akureyri.  N1 starfrækir í kjölfarið bæði hjólbarðaverkstæði og smurstöð á Akureyri ásamt verslun og þjónustustöðvum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá N1.

Haft er eftir Hinriki Erni Bjarnasyni, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs N1, að kaupin séu liður í því að auka við þjónustu til Akureyringa auk annarra viðskiptavina N1 um land allt. Markmiðið er því að nýtt verkstæði N1 bjóði upp á framúrskarandi þjónustu og breitt vöruúrval af dekkjum frá Michelin og Cooper.