Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,60% í viðskiptum dagsins sem námu 3,6 milljörðum króna. Náði vísitalan við lok viðskptadagsins því 1.809,71 stigi.

Aðalvísitala Skuldabréfa hækkaði einnig eða um 0,26% í 7 milljarða viðskiptum og er hún nú 1.286,18 stig.

Hagar og Síminn hækkuðu

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður í dag hækkaði gengi bréfa Haga mest í dag eða um 5,81% í 846 milljón króna viðskiptum. Fæst hvert bréf félagsins nú á 51,90 krónur en við útreikninga á kaupverði félagsins á Olís var miðað við gengið 47,5 krónur.

Hækkun á gengi bréfa Símans var einnig mikil eða um 4,83% í 944 milljón króna viðskiptum. Stendur gengi bréfanna nú í 4,12 krónum.

N1 og Reginn lækkuðu

Mest lækkun var hins vegar í bréfum N1, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag voru bréf félagsins búin að taka á sig hækkun fyrir útgáfu afkomutalnanna sem komu eftir lokun markaða í gær.

Lækuðu bréfin um 4,66% í 434 milljón króna viðskiptum og er gengi þeirra nú 112,50 krónur. Næst mest var lækkun bréfa Regins eða um 1,47% í 174 milljón króna viðskiptum og fást nú bréf félagsins á 28,45 krónur.