Stóru tryggingafélögin þrjú – Vátryggingafélag Íslands (VÍS), Sjóvá-Almennar tryggingar og Tryggingamiðstöðin (TM) – högnuðust um 4,8 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagnaður félaganna var ríflega tvöfalt meiri en á sama tímabili í fyrra, þegar þau högnuðust um 2,1 milljarð til samans. Mestur var hagnaðurinn hjá TM, eða 1.875 milljónir króna borið saman við 1.174 milljónir á sama tímabili árið áður. Hagnaður Sjóvá nam 1.803 milljónum en var 709 milljónir árið áður. VÍS hagnaðist um 1.107 milljónir samanborið við 238 milljónir árið áður. Eins og oft áður myndaðist bróðurpartur hagnaðarins hjá tryggingafélögunum á fjármálamarkaði.

Afkoma VÍS af vátryggingastarfsemi nam 1.036 milljónum borið saman við 273 milljónir árið áður. Hjá Sjóvá var afkoman 385 milljónir borið saman við 75 milljónir árið áður. Afkoma TM var neikvæð um 38 milljónir, en var 531 milljónir árið áður.

Arðsemi félaganna í vátryggingarekstri endurspeglast í samsetta hlutfallinu. Tryggingafélögin styðjast við mismunandi aðferðir við útreikning hlutfallsins. Til að gæta samanburðarhæfni er einfaldast að miða við samtölu eigin tjóns og rekstrarkostnaðar (að frádregnum kostnaði við fjármálastarfsemi) sem hlutfall af eigin iðgjöldum. Ef hlutfallið er yfir 100% skilar vátryggingareksturinn ekki hagnaði. Á þeim mælikvarða var VÍS með 95,2% samsett hlutfall á fyrri árshelmingi borið saman við 105% á sama tíma árið áður. Hlutfallið hjá Sjóvá var 102,3% borið saman við 104,9% árið áður. Loks var TM með hlutfallið 106% borið saman við 96,9% árið áður. Sé litið yfir tólf mánaða tímabil miðað við lok annars ársfjórðungs var samsett hlutfall VÍS 97,2%, 100,4% hjá Sjóvá og 105,6% hjá TM.

Sögulega séð hafa íslensk tryggingafélög keyrt á samsettu hlutfalli yfir 100% – einkum fyrir hrun – og hefur rekstur þeirra verið að talsverðu leyti fólginn í ávöxtun fjármuna. Sveinn Þórarinsson hjá hagfræðideild Landsbankans telur þó að tryggingafélögin séu að ná betri tökum á vátryggingarekstrinum, þótt hann sé ekki beint glimrandi.

„Það var alltaf mikil umræða um neikvæða afkomu tryggingafélaganna af grunnrekstri og að þau væru ekki að verðleggja áhættu nógu vel. Félögin tóku þá upp á því að hækka iðgjöld. Ég held að menn hafi áttað sig á því að verðlagningin væri röng og núna séu félögin að laga það. Þetta sést í iðgjaldavexti hjá félögunum og í verðbólgutölum. Þetta hefur átt sinn þátt í að bæta afkomuna í vátryggingarekstri, þó að reksturinn sé ekki beint glimrandi, enda eru félögin að jafnaði enn með samsett hlutfall í kringum 100%. Sé litið til tryggingaflokka heyrist manni að batinn sé mestur hjá tryggingafélögunum í ökutækjatryggingum. Aukin umsvif í hagkerfinu hafa einnig leitt til þess að iðgjöld hafa hækkað þar sem líkur á tjóni eru meiri en ella.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .