Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir fólksfjölgunina í bænum þá mestu sem sést hafi. Það sem af er ári hefur íbúum bæjarins fjölgað um 7,3% en á öllu síðasta ári nam fjölgunin 8 prósentum að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

„Á síðustu tólf mánuðum frá júlí 2016 til júlí 2017 er fólksfjölgunin 8,6 prósent í Reykjanesbæ. Þetta er algjörlega fordæmalaust,“ segir Kjartan Már. „Þetta er það mesta sem við höfum séð. Talað er um í þessum fræðum að 1,3 til 1,5 prósent fjölgun sé eðlileg og æskileg.“

Spá 55% fjölgun

Samkvæmt spám rannsóknarsetursins Framtíðarsetur Íslands mun íbúum á Suðurnesjum fjölga um 55% til ársins 2030 ef miðað er við íbúafjölda síðasta árs. Gangi þær spár eftir, en setrið rannsakar samfélagstenda framtíðarþróun og önnur samfélagsverkefni, mun heildaríbúafjöldinn þá verða 34.800.

Það þýðir að byggja þarf hátt í 400 íbúðir á ári næstu þrettán árin á svæðinu, ef miðað er við 2,5 íbúa á hverja íbúð. Kjartan Már áætlar sjálfur að það þurfi að byggja um 2.200 íbúðir í bænum til ársins 2030, sem eru þá tæplega 200 íbúðir á ári. Telur hann bæinn geta tekið við þessari fólksfjölgun en nú þegar er eftirspurn eftir íbúðum á svæðinu orðin töluverð.

Nægt framboð af landi í Reykjanesbæ

„Það er verið að taka í notkun hvern einasta fermetra á svæðinu,“ segir Kjartan sem bendir á að miklar byggingaframkvæmdir standi nú yfir.

„Nú er komið í gildi nýtt aðalskipulag sem gildir til 2030. Þar er gert ráð fyrir nokkrum sviðsmyndum varðandi íbúaþróun og íbúafjölgun. Fjölgun er gríðarleg núna, var gríðarleg í fyrra, en ef við gefum okkur síðan að þetta dragist aðeins saman og meðalfjölgun verði um 2,5 prósent á ári á þessu tímabili þá þurfum við að byggja um 2.200 íbúðir. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir því að það sé nægt framboð af landi.“

Næstum fimmtungur með erlent ríkisfang

Kjartan Már segir alþjóðaflugvöllinn í Keflavík trekkja að fólk, þá sérstaklega fólk af erlendum uppruna. „Það er rosalega hátt hlutfall af íbúum núna með erlent ríkisfang, eða 19,4 prósent af íbúum Reykjanesbæjar. Í sumum skólum er hlutfall nemenda með erlent ríkisfang komið upp í 30 prósent,“ segir Kjartan.

„Í skýrslu sem gerð var fyrir Isavia, og er þá miðað við farþegaspá og vöxt í millilandafluginu, mun störfum í kringum millilandaflugið fjölga um að meðaltali 400 á ári, sem er eins og eitt stykki álver á ári.“