Tíu starfsmenn byggingavörufyrirtækjanna Byko og Húsasmiðjunnar voru ákærðir fyrir refsivert verðsamráð í störfum sínum hjá fyrirtækjunum á tímabilinu 13. september 2010 til 3. mars 2011. Í ákæru voru átta þeirra sakaðir um refsivert verðsamráð í störfum sínum hjá fyrirtækjunum með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna. Á sama hátt var fjórum ákærðu gefin að sök sams konar brot í störfum sínum fyrir Byko í símtölum milli eins þeirra og starfsmanna þriðja fyrirtækisins.

Þá voru tveir ákærðu sakaðir um refsiverða hvatningu til verðsamráðs milli Byko og Húsasmiðjunnar í símtölum sem þeir áttu hvor í sínu lagi og aðrir tveir um refsivert verðsamráð milli fyrirtækjanna og hvatningu til þess í enn öðru símtali. Loks var þremur ákærðu gefin að sök, hverjum fyrir sig, tilraun til að koma á slíku samráði í símtölum við starfsmann fjórða fyrirtækisins.

Í dómi Hæstaréttar var talið sannað með vísan til þeirra gagna sem lögð höfðu verið fram í málinu að Byko hefði upphaflega spurst fyrir um verð hjá Húsasmiðjunni í símtölum, en samskiptin síðan þróast úr því að vera einhliða í að verða gagnkvæm þar sem þeir, sem ræðst hefðu við, skiptust á upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum í sömu eða sambærilegum vörutegundum sem einkum hefðu tilheyrt svokallaðri grófvöru.

Í yfirlýsingu frá Byko segir:

Ákvörðun Hæstaréttar um að snúa við afdráttarlausri niðurstöðu fjölskipaðs héraðsdóms um meint verðsamráð á byggingavörumarkaði veldur bæði undrun og vonbrigðum. Úrskurðurinn sem settur er fram á yfir 50 blaðsíðum virðist vera nýr dómur en ekki endurmat á dómi í héraði. Þessi niðurstaða gengur einnig þvert á anda þeirrar ákvörðunar Áfrýjunarnefndar samkeppnismála að lækka sektargreiðslur Samkeppniseftirlitsins gagnvart BYKO um 90%. Dómurinn er að mati BYKO óskiljanlegur og ekki er ósennilegt að hann verði til þess að auka enn frekar umræður í samfélaginu um vinnubrögð og niðurstöður í Hæstarétti á undanförnum misserum og árum.

Niðurstaða fjölskipaðs héraðsdóms í apríl árið 2014 var með einni undantekningu að sýkna alla sakborninga af öllum ákæruatriðum. Dómurinn taldi gögn málsins sýna það með óyggjandi hætti að verðsamkeppni á byggingavörumarkaðnum væri mikil. Orðrétt sagði í niðurstöðum héraðsdóms: „Benda öll þessi skilaboð til þess að hið gagnstæða hafi verið, mikil og hörð samkeppni, en ekki verðsamráð“.

BYKO hefur frá upphafi haldið fram sakleysi sínu gagnvart hvers kyns ásökunum um ólögmætt verðsamráð og fyrirtækið hefur sömuleiðis staðið þétt við bak þeirra starfsmanna sem ákærðir voru og nú hafa verið dæmdir. Á því verður engin breyting.