Á næsta ári verður virðisaukaskattur á ferðaþjónustu hækkaður úr 11% í 24% en í svo lækkar skatthlutfallið aftur niður í 22,5% við einföldun skattkerfisins. Þar með verður virðisaukaskattur á gistingu á Íslandi sá næst hæsti í Evrópu að því er kemur fram í frétt Túrista . Hins vegar verður hlutfall opinberra gjalda af ódýrri gistingu það hæsta í Evrópu.

Gistináttargjald á gistingu hækkar úr 100 krónum í 300 krónur í haust. Það er áfram gert ráð fyrir þessu gjaldi í fjármálaáætlun hins opinbera þrátt fyrir að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu tvöfaldist 1. júlí á næsta ári. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Túrista um áhrif á breytingar á virðisaukaskattskerfinu á gistináttagjaldið.

Túristi.is ber einnig saman virðisaukaskatt á greinina. Álögur á ferðaþjónustu á Íslandi verði því þær næst hæstu í Evrópu, aðeins í Danmörku er virðisaukaskattur á greinina hærri, en þar er eitt skattþrep, 25%. Í Svíþjóð er virðisauki 25% en aðeins 12% á hótelum og matsölustöðum. Í Finnlandi og Noregi greiða hótelgestir 10% virðisaukaskatt, í Þýskalandi er hlutfallið 7, 10% í Frakklandi og 13% á Spáni.

Innheimta á 100 króna gistináttagjaldi hófst hér á Íslandi fyrir fimm árum en á hinum Norðurlöndunum tíðkast ekki þess háttar gjald. Upphæð gjaldsins þrefaldast í haust og þá þurfa gestir á íslenskum gististöðum að greiða 300 krónur aukalega fyrir hvert herbergi hverja nótt. Því verður hlutfall opinberra gjalda af hótelgistingu, í ódýrari kantinum, hæra hér á landi en til að mynda í Danmörku og þrefalt hærra en í Noregi.