*

mánudagur, 21. janúar 2019
Innlent 26. júní 2015 12:42

Næsta þing SUS verður í Vestmannaeyjum

Magnús Júlíusson, formaður SUS, ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs á næsta þingi.

Ritstjórn
Vestmannaeyjar.
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur boðað til 43. sambandsþings SUS dagana 4. – 6. september 2015 og mun það bera yfirskriftina „Frjáls þjóð, frjáls markaður og frjálst fólk“.

Þingið verður haldið í Vestmannaeyjum og verða Eyverjar, félag ungra sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, gestgjafi þingsins. Nánari dagskrá og tilhögun þingsins verður auglýst síðar, segir í tilkynningu.

Magnús Júlíusson, formaður SUS, hyggst ekki gefa kost á sér til endurkjörs á þinginu.

Samband ungra sjálfstæðismanna er samband allra svæðisbundnu sjálfstæðisfélaga ungs fólks á aldrinum 15 til 35 ára. Félögin eru 38 talsins, þar af er Heimdallur í Reykjavík stærsta félagið. Um 13.000 ungir sjálfstæðismenn eiga aðild að sambandinu, sem var stofnað á Þingvöllum 27. júní árið 1930.

Sambandsþing eru haldin annað hvert ár í ágúst eða september þar sem formaður og 26 stjórnarmenn úr öllum kjördæmum landsins eru kjörnir til tveggja ára.