RB er næstelsta tæknifyrirtækið á eftir Skýrr og hefur starfað frá 1974. Árið 2011 var fyrirtækið hlutafélagavætt og á sama tímapunkti tók Friðrik við starfi forstjóra, en Friðrik Þór Snorrason var viðmælandi Viðskiptablaðsins í vikunni. Fyrri hluta úr viðtalinu má nálgast hér en viðtalið í heild birtist í Viðskiptablaðinu .

„Bankarnir þrír eiga tæp 90% í félaginu ásamt færsluhirðum, minni bönkum og sparisjóðum. Fram til 2011 var RB rekið í svokallaðri „óskiptri sameign“ og við vorum eina fyrirtækið á landinu með þetta rekstrarform ásamt Tölvumiðstöð sparisjóðanna. Í framhaldi af hruninu fóru menn aftur að horfa aftur til þessa sérstaka fyrirtækis, RB, og velta fyrir sér hvort ekki sé hægt að nýta það með meiri og betri hætti en hefði verið og nota til að hagræða í bankakerfinu. Fyrirtækinu var veitt meira frelsi og stefnu þess breytt sem og samsetningu stjórnar og ýmislegt annað.“

Eins og Friðrik nefnir í viðtalinu er bankakerfið að ganga í gegnum töluverðar breytingar. „Við erum fyrir það fyrsta að innleiða þessi nýju grunnkerfi á sama tíma og breytingavindar blása um fjármálamarkaðinn sem miða að því að opna fjármálakerfið með einhverjum hætti. Fyrsta vindhviðan snýr að breytingum sem stjórnvöld og þá sérstaklega Evrópusambandið eru að innleiða með nýjum lögum greiðsluþjónustu sem opna leikvöllinn fyrir nýja leikendur,“ segir Friðrik.

„Annað sem er að gerast er svo þessi öra tækniþróun sem ný fyrirtæki nýta til að þróa ný viðskiptamódel fyrir fjármálaþjónustu. Þessi fjártæknifyrirtæki nálgast til dæmis greiðslur og útlán með allt öðrum hætti en nú er gert. Þriðja vindhviðan snýr að neytendum en þeir gera sífellt meiri kröfur, til dæmis um að fjármálaþjónusta sé samþætt því viðmóti sem fólk notar hverju sinni.“

Friðrik segir að innleiðing nýrra grunnkerfa á Íslandi sé í raun forsenda fyrir því að þessar breytingar nái fram að ganga, en ein af lykil hönnunarmarkmiðum þeirra er að opna betur á aðgengi að fjármálakerfinu, styðja við samstarf fjármálafyrirtækja við önnur fyrirtæki og ýta þannig undir nýþróun.

Hver eru fyrirsjáanleg áhrif þessara breytinga?

„Til skamms tíma hefur þetta áhrif á allt sem snýr að greiðslum og hvernig þær eru framkvæmdar. Þegar þú ferð út í búð í dag ferðu með kortið þitt og borgar með því. Í framtíðinni koma kortin kannski ekkert að þessum greiðslum.“

Friðrik á þarna ekki við millileiki sem eru í boði í dag, þar sem notandinn er í rauninni bara með greiðslukortið í símanum. „Farsíminn er þá beintengdur við innlánareikninginn og þú framkvæmir greiðslu á posa með símanum.“ Þetta hefur í för með sér endurskilgreiningu á ýmsum atriðum, til dæmis á ábyrgð bankans, tækniþjónustuveitandans, og neytandans.

Þyrfti að nýta virðisaukaskattskerfið

Sem stendur er drjúgur meirihluti íslenska bankakerfisins í eigu íslenska ríkisins. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði orð á því á áðurnefndum fundi RB í síðustu viku að það væri ef til vill ekki haganlegt fyrirkomulag til framtíðar.

„Hann sagðist á fundinum hafa fulla trú á að bankarnir gætu keppt og staðið sig í samkeppni en það er þó yfirlýst stefna hjá ríkinu að minnka eignarhlut sinn í bönkunum. Ég myndi telja að þar liggi undir óþarflega mikil áhætta. Ríkið getur líka spurt sig hvernig það geti stutt við opnun fjármálakerfisins. Það eru hlutir sem vinna gegn þessu. Í fyrsta lagi hvernig virðisaukaskattskerfið virkar. Hringrásin milli inn- og útskatts brotnar þegar kemur að bönkunum. Þeir bera að fullu leyti allan innskatt af aðkeyptri þjónustu. Ef þú vilt ýta undir opnun og meiri kaup á þjónustu frá þriðja aðila þá ertu með virðisaukaskattskerfinu að búa til hvata sem vinna gegn þessu. Það má velta upp stöðu þessa sérstaka fjársýsluskatts, sem er í reynd bara 6% tekjuskattur á hagnað banka yfir einum milljarði. Það mætti sjá fyrir sér að hringrásin væri tengd þannig að þeir mættu draga innskattinn af aðkeyptri þjónustu frá þessum sérstaka fjársýsluskatti og þannig búa til hvata fyrir útvistun og samstarfi,“ segir Friðrik.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .