Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur ekki farið leynt með vonbrigði sín vegna hjásetu Eyglóar Harðardóttur, velferðarráðherra, í atkvæðagreiðslum um fjármálaáætlun og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar í fyrradag.

Fjármálastefnan og fjármálaáætlunin ná frá árunum 2017 til 2021 og eru liður í heildstæðri framtíðarstefnumótun stjórnvalda. Eygló greindi frá því á Facebook síðu sinni að hún myndi sitja hjá þar sem „ekki [er] hugað nægilega að lífeyrisþegum og barnafjölskyldum.“

Í samtali við Stöð 2 í gær sagði Bjarni að slíkar fullyrðingar væru „ódýrt tal“ sem væri „varla boðlegt í umræðuna“ í stóru og mikilvægu máli sem þessu.

„Það verður þá að gera grein fyrir því af hverju á að taka eða hvernig eigi að stórauka tekjurnar eða að hvaða leyti eigi að ganga á afgang í ríkisfjármálunum,“ sagði Bjarni. Gaf hann jafnframt í skyn að Eygló væri hugsanlega að reyna að skapa sér sérstöðu fyrir kosningar með ákvörðun sinni.

Getur ekki verið eins og á leikskóla

Bjarni lýsti einnig yfir vanþóknun sinni í samtali við RÚV . Ákvörðunin hefði í sjálfu sér ekki komið á óvart en hins vegar sætti það tíðindum að ráðherra styddi ekki lykilmál og eðlilegt að menn yrðu hvumsa við.

„Menn verða að líta í eigin barm og spyrja sig hvort þeir geta setið áfram ef þeir styðja ekki meginmál. Starfsfriður í ríkisstjórninni [er] háður því að menn komist sameiginlega að niðurstöðu og í tilfelli ríkisfjármálaáætlunarinnar, þá er það bara þannig ef menn skoða það og eru málefnalegir, þá höfum við verið að forgangsraða því sem er til skiptanna meðal annars í málaflokkana sem þessi ráðherra er fyrir,“ segir Bjarni.

„Hún getur ekki gert miklar kröfur um að fá framgang annarra mála á meðan hún styður ekki það sem aðrir ráðherrar eru að fá. Þetta getur ekki verið bara eins og á leikskóla, að menn berji í borðið þangað til að hver fær það sem hann vill, þá verður bara ríkisstjórnin óstarfhæf og allt er í viðstöðulausri upplausn.“

Myndi ekki gerast hjá Sjálfstæðisflokknum

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Bjarna að ákvörðun Eyglóar sé ekki til þess fallin að treysta samstarfið milli stjórnmálaflokka í samsteypustjórn.

„Þetta er næsti bær við að styðja ekki fjárlög,“ segir Bjarni í Morgunblaðinu og bætir því við að hann byggist ekki við að sjá slíkt athæfi innan eigin flokks.

„Ég sé það ekki fyrir mér að svona nokkuð gæti gerst hjá okkur í Sjálfstæðisflokknum. Hvorki ég né þingflokkurinn myndum líða það. Við leiðum ágreiningsmál til lykta innan flokksins.“

Eygló sagði sjálf í samtali við Morgunblaðið að ákvörðun sín ætti ekki að hafa komið neinum á óvart.

„Þetta er mjög einkennilegt. Afstaða mín í þessum málum ætti ekki að koma neinum á óvart. Hún lá fyrir þegar málið var afgreitt út úr ríkisstjórn og ég ítrekaði hana þegar málið fór í gegnum þingflokkinn, auk þess sem ég skrifaði grein um afstöðu mína í sumar,“ sagði Eygló.