Uppsveiflan í hagkerfinu hefur nú staðið yfir í tæp sex ár og allir helstu greiningaraðilar spá því að hún haldi áfram. Ef spár greiningaraðila ganga eftir verður yfirstandandi áratugur lengsta samfellda skeið vaxtar landsframleiðslu á hvern íbúa í nútímasögu Íslands.

Hagvöxtur tók við sér á seinni hluta árs 2010 en þá var landsframleiðsla um 4 prósentum undir því sem hún hefði verið ef hún væri í jafnvægi að mati Seðlabankans. Langan tíma tók að ná jafnvægi á ný og er framleiðsla íslenska hagkerfisins nú nokkurn veginn í takt við framleiðslugetu.

Það mun þó breytast tiltölulega hratt á næstu misserum samkvæmt spá Seðlabankans og verður landsframleiðslan um 2,4 prósentum umfram framleiðslugetu á þessu ári áður en hún minnkar aftur. Aðrir greiningaraðilar búast reyndar við meiri hagvexti og að toppi uppsveiflunnar verði náð seinna. Meðaltal spáa greiningaraðila hljóðar upp á 4,8% hagvöxt í ár, 4,1% vöxt á næsta ári og 3,3% vöxt árið 2018.

Öðruvísi þensla en áður

„Þetta hefur verið tiltölulega hóflegur hagvöxtur hingað til,“ segir Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, um yfirstandandi hagvaxtarskeið en Íslandsbanki gaf út nýja þjóðhagsspá fyrr í þessum mánuði. Hann segir að í samanburði við fyrri uppsveiflur einkennist núverandi uppsveifla af miklum vexti útflutnings.

„Sem er sérstakt, því yfirleitt hafa menn verið mjög snöggir í að keyra upp innlenda eftirspurn. Þannig að hagkerfið hefur farið mjög fljótt í ytra ójafnvægi og krafist einhverrar leiðréttingar. En það er ekki að gerast núna,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .