„Forráðamenn HB Granda hafa ákveðið að tilkynna nú þegar ákvörðun um að hefja vinnslu á bolfiski á Vopnafirði á nýjan leik í haust þó útfærsla á þeirri ákvörðun sé eftir. Í beinu framhaldi af þessari ákvörðun munum við kanna hvaða fisktegund eða tegundir henta best til vinnslu á Vopnafirði, hvaða afurðir verða unnar og með hvaða hætti verður staðið að öflun aflans. Það er HB Granda mikið gleðiefni að geta með þessum breytingum haldið áfram að vera öflugur atvinnuveitandi á Vopnafirði.“

Svo segir í yfirlýsingu á vef HB Granda sem birt er í framhaldi af fréttum þess efnis að stjórn fyrirtækisins hafi ákveðið að hefja bolfiskvinnslu á nýjan leik á Vopnafirði. Þar var síðast unninn bolfiskur á vegum félagsins árið 2006.

Starfsemi félagsins á Vopnafirði hefur eingöngu snúist um vinnslu á uppsjávarfiski undanfarin ár en nú er samdráttur í þeirri vinnslu. Þannig hefur fiskvinnsla legið niðri frá því í nóvember. Loðnuvertíð hefst að öllu jöfnu í byrjun janúar en vegna þess hve lítið aflamark hefur verið gefið út hafa skip félagsins ekki enn hafið loðnuveiðar.

Loðnuvertíð lýkur jafnan seinni hluta marsmánaðar þannig að hún verður í stysta lagi í ár. Næsta verkefni eftir það við frystingu uppsjávarfisks í vinnslu félagsins á Vopnafirði hefst væntanlega í júlí með vinnslu á makríl og síld.

Samdráttur í uppsjávarafla

Í yfirlýsingunni segir um ástand og horfur í fiskveiðum:

„Útlitið með helstu uppsjávarfiskistofna er ekki gott sem stendur. Ungloðnumæling Hafrannsóknastofnunar gefur ekki tilefni til bjartsýni og mun stofnunin ekki ráðleggja aflamark í loðnu fyrir árið 2017 á grundvelli hennar. Nýlega kom fram að Hafrannsóknastofnun hefði mælt um helmingi minna af íslenskri sumargotssíld fyrir vestan land en von var á. Norsk-íslenski síldarstofninn hefur skroppið verulega saman undanfarin ár og eru litlar vísbendingar um að stofninn sé að rétta úr kútnum. Aflamark íslenskra skipa var 238 þúsund tonn af Norsk-íslenskri síld árið 2009 en 39 þúsund tonn árið 2015. Loks er vert að geta að samkomulag um hlutdeild og nýtingu kolmunna og makríls virðist ekki í sjónmáli. Eftir því sem árunum fjölgar við veiðar umfram ráðgjöf aukast líkur á hruni þessara stofna.

Bjartara yfir botnfiskinum

Framtíðarhorfur varðandi helstu bolfiskstofna eru öllu bjartari samkvæmt heimasíðu Hafrannsóknastofnunar: „Vísitala þorsks í stofnmælingu að hausti árið 2015 er sú hæsta síðan mælingar hófust árið 1996. Vísbendingar eru um að 2014 árgangur þorsks sé stór og sá stærsti síðan mælingar hófust árið 1996. Svipað fékkst af öðrum tegundum í stofnmælingu að hausti árið 2015 og árið 2014 og eru vísitölur sumra tegunda þær hæstu frá upphafi rannsóknanna. Vísbendingar eru um að 2014 og 2015 árgangar ýsu séu yfir meðalstærð eftir langvarandi lélega nýliðun.“