Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins, segir kauptilboð félagsins í fasteignina Austurstræti 22 vera nánast frágengna sölu. Helgi telur allar líkur á að tilboðið gangi eftir, það séu engir fyrirvarar á tilboðinu nema fyrirvarar um niðurstöðu á laga- og skattalegri áreiðanleikakönnun. "Í okkar huga og seljandans er þetta nánast frágengin sala," segir hann um málið í samtali við Viðskiptablaðið.

Eins og vb.is greindi frá í morgun sendi Reginn frá sér tilkynningu um samningaviðræður vegna fasteignarinnar. Helgi segir að fyrirtækin sem leigja á lóðinni, meðal annars Grillmarkaðurinn, Lögmenn Lækjargötu, Nordic Store, Caruso veitingahús og Listaháskóli Íslands munu áfram vera með leigusamning um húsnæði. "Þau eru með mismunandi langa samninga allt frá tveimur upp í átta til níu ár," segir Helgi og bætir við að þetta séu öflug fyrirtæki sem þeir vilji halda inni til að styrkja tekjurnar. Hann segir reksturinn ganga vel en tekjur miðað við núverandi leigusamninga eru rúmlega 81 m.kr á ári.

Aðspurður segir Helgi Reginn hafa áhuga á þessum húsum vegna þess að fasteignafélagið hefur almennt áhuga á húsum í miðbænum. Þeir eiga nokkur öflug horn, meðal annars þar sem Apótekið er. Þeir eru einnig að byggja á Hörpureit 1 og 2, þar sem verða verslun, þjónusta og veitingastaðir árið 2017 í 8 þúsund fermetra húsnæði. "Þetta eru svo verðmætar einingar í miðbæ Reykjavíkur á besta stað," segir Helgi. Aðspurður segir Helgi Reginn ekki vera með áætlanir um að fjárfesta meira í miðbænum á árinu.