Næstfæstir ferðamenn komu hingað til lands í febrúarmánuði á síðasta ári samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Túristi greinir hins vegar frá því að eftirspurnin á þessum árstíma sé að aukast af hótelbókunum að dæma.

Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) segir í samtali við Túrista að á sumum hótelum og gististöðum í Reykjavík sé þegar nánast fullbókað í mánuðinum. Aðeins nokkur herbergi á stangli séu laus en á öðrum stöðum sé nýtingin mjög góð þótt ekki sé enn fullbókað.

Hann segir hvataferðir, árshátíðir og almennar vetrarferðir helstu ástæðuna fyrir þessari góðu bókunarstöðu í næsta mánuði og fram á vor.