Friðrik Á. Ólafsson, forstöðumaður byggingarsviðs Samtaka iðnaðarins, segir að þegar allt sé tekið saman þá séu leyfisgjöld, lóðaverð og fjármagnskostnaður í heildina um 30% af söluverði eigna.

„Ef þessi þessi gjöld og kostnaður væri lægri þá væri hægt að lækka framleiðslukostnaðinn og þar með íbúðaverð um ótrúlegar tölur," segir Friðrik. „Við höfum mætt á fund með Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og bent á þetta en ekkert gerist. Það virðist sem allt sé gert til að hækka verð á fasteignum. Eitt lítið dæmi er að í dag er þetta meira að segja þannig að svalir eru komnar inn í fasteignamat en áður var bara litið á þær sem kalt rými."

Að sögn Friðriks er fjármagnskostnaður verktaka mjög mikill. „Þessi framkvæmdalán eru í mörgum tilfellum nánast okurlán og því gríðarlega dýrt fyrir verktaka að sitja uppi með óseldar eignir enda hef ég heyrt að það sé aðeins farið að þrengja að mönnum. Vextirnir af þessum lánum er miklu hærri en vextir sem einstaklingar fá í bönkum eða hjá Íbúðalánasjóði."

Ágúst Pétursson, formaður Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði, tekur undir með Friðrik og segir fjármagnskostnaðinn allt of háan. „Hann er auðvitað misjafn eftir því hvernig fyrirtækin standa. Um og yfir 10% vextir eru ekki óalgengir."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .