Stærstu hluthafar norrænu kauphallarsamstæðunnar OMX, sem á og rekur kauphallir á Norðurlöndunum og Eystrarsaltsríkjunum, hafa ákveðið að styðja yfirtökutilboð Nasdaq og kauphallarinnar í Dubai. Þetta var ljóst í gær eftir að bandaríska kauphöllin og Dubai hækkuðu fyrra tilboð sitt, sem hljóðaði upp á 230 sænskar krónur á hlut, upp í 265 krónur. Það tilboð verðmetur OMX á um 4,9 milljarða sænskra króna.

Stóru hluthafarnir sem um er að ræða, samkvæmt frétt Financial Times, eru Investor AB, eignarhaldsfélag Wallenberg fjölskyldunnar, sem á 10,7% hlut í OMX, Nordea bankinn, sem á 5,2% hlut, háttsettir stjórnendur kauphallarinnar og sænsk stjórnvöld, sem ráða yfir 6,6% hlut.

Fjármálaskýrendur segja að þessi ákvörðun hluthafa OMX muni setja aukinn þrýsting á Qatar Investment Authority (QIA), fjárfestingarsjóðs í eigu stjórnvalda í Katar, sem keypti í vikunni 9,98% hlut í norrænu kauphöllinni. "Hann verður núna annað hvort að gera strax yfirtökutilboð í OMX eða láta sig hverfa" er haft eftir einum bankamanni í Financial Times. Fréttir af kaupum katarska fjárfestingarsjóðsins á hlut í OMX í síðustu viku komu á sama tíma og Nasdaq og Dubai tilkynntu um samkomulag sitt að gera sameiginlegt yfirtökutilboð í OMX.

Í ljósi þeirra miklu áhrifa sem Wallenberg fjölskyldan hefur í sænsku þjóðlífi, - en hún hefur mikilla viðskiptahagsmuna að gæta í efnahagslífii Svíþjóðar - auk þess að vera stærsti einstaki hluthafi OMX, er stuðningur Investor AB talinn ráða úrslitum um það hvort áhugasamir kaupendur geti yfirtekið kauphöllina.

Samhliða því að hækka yfirtökutilboð sitt umtalsvert, ákváðu Dubai og Nasdaq að lækka hlutfall þeirra hluthafa OMX sem þurfa að samþykkja tilboðið, úr 90% í 50%. Nasdaq og kauphöllin í Dubai segjast hafa nú þegar tryggt sér stuðning tæplega 48% hluthafa. Hins vegar er samþykki stóru hluthafanna gert með því skilyrði að ekki berist annað tilboð í kauphöllina sem hljóðar upp á að minnsta kosti 303 sænskar krónur á hlut, og Nasdaq og Dubai verði ekki reiðubúinn til jafna slíkt tilboð.

Gengi bréfa í OMX kauphöllinni hækkuðu í kjölfar frétta af hærra tilboði Nasdaq og kauphallarinnar í Dubai. Við lok viðskipta í gær stóð gengi bréfanna í 278,5 krónum á hlut og hafði þá hækkað um tæplega 3% frá því á þriðjudaginn.