Nasdaq kauphöllin sem rekur kauphallirnar á Íslandi, Kaupmannahöfn, Svíþjóð og Finnlandi hefur boðið í öll útistandandi hlutabréf í kauphöllinni í Osló, en hún er sú eina á Norðurlöndunum sem enn stendur utan keðjunnar.

Hefur stjórn kauphallarinnar í Noregi lýst yfir stuðningi við söluna til Nasdaq AB, en hvetja hluthafa jafnframt til að taka ekki tilboði frá Euronext. Hafa nú þegar hluthafar sem eiga 35,11% í kauphöllinni samþykkt að selja bréf sín til Nasdaq á Norðurlöndunum, en þar á meðal eru tveir stærstu hluthafar kauphallarinnar.

Tilboð Nasdaq gengur út á að það greiði 152 norskar krónur, eða sem samsvarar 2.150 íslenskar krónur, auk loforðs um 6% vexti á ári frá 29. Janúar þangað til skilyrðum tilboðsins hefur verið náð eða hafnað.

Heildarmarkaðsvirði kauphallarinnar samkvæmt þessu nemur 6.537 milljónum norskra króna, eða sem samsvarar 92,5 milljörðum íslenskra króna, sem er 5% hærri upphæð en samevrópska kauphallarfyrirtækið Euronext bauð, utan reyndar vaxtagreiðslna sem það síðarnefnda bauð.

Kauptilboðið er jafnframt 38% hærra en lokavirði félagsins þann 17. desember síðastliðinn. Samkvæmt samkomulagi seljenda og kaupenda mun norska kauphöllin halda ákveðnum sérkennum sínum, þar með talið vörumerkinu, auk þess að lögð verður áfram áhersla á að vera í fararbroddi í orku, flutningum og sjávarfangi.

Jafnframt lítur stjórn norsku kauphallarinnar á að í samstarfi við kauphallir hinna norðurlandanna muni það styrkja markað svæðisins og auka sýnileika norskra hlutafélaga. Hins vegar hefur tilboði Euronext verið tekið af eigendum 45,2% af bréfum í kauphöllinni, auk þess sem samsteypan átti 5,3% í henni. Tilboð Euronext er þó háð því að 50,01% bréfa verði í eigu samsteypunnar.

Á vef Nasdaq er það sagt óæskileg niðurstaða ef svo fari að hluthafar taki tilboði Euronext, meðan þriðjungur hluthafa muni ekki taka því, enda sé þegar búið að heita samsvarandi bréfum til sölu til Nasdaq. Er þar sagt að norsk stjórnvöld hljóti að líta á kauphöllina sem lykilinnviður sem varði þjóðina miklu og því muni samþykkt stjórnvalda á viðskiptunum geta skipt sköpum.