Nefndin átti að skila af sér tillögum í formi lagafrumvarps fyrir 1. desember næstkomandi, en þá rennur úr gildi núverandi fyrirkomulag veiðigjalda.

„Eftir fund nefndarinnar 6. september síðastliðinn gerði ég ráðherra munnlega grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki á þeirri stundu tilbúinn að fallast á að tímabundinn veiðiréttur skyldi vera grundvöllur gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni,“ segir Þorsteinn í tilkynningu sem ráðuneytið hefur nú birt .

„Um leið lét ég það álit mitt í ljós að tilgangslítið væri að halda áfram tilraunum til samkomulags um önnur atriði meðan sá flokkur sem fer með forystu fyrir ríkisstjórn opnaði ekki með ótvíræðum hætti fyrir lausn á þeirri forsendu.“

Hann segir þetta mat sitt vera óbreytt.

„Að minni hyggju er tímabundinn afnotaréttur forsenda fyrir því að ná megi tveimur afar mikilvægum markmiðum í löggjöf um þessi efni: Annars vegar að lagareglurnar endurspegli með alveg ótvíræðum hætti sameign þjóðarinnar. Hins vegar að þær megi stuðla að sem mestri þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði síðastliðið vor nefnd allra flokka sem fékk það hlutverk að skila tillögum til ráðherrans í formi lagafrumvarps eigi síðar en 1. desember næstkomandi, en þá fallur úr gildi núverandi fyrirkomulag veiðigjalda.

Auk Þorsteins, sem var formaður nefndarinnar, áttu sæti í nefndinni þau Hanna Katrín Friðriksson fyrir Viðreisn, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Mörður Ingólfsson fyrir hönd Pírata, Páll Jóhann Pálsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.