Nefndarmenn peningastefnunefndar voru einróma um að halda stýrivöxtum óbreyttum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar. Töldu nefndarmenn að þjóðhagsreikningar sýndu meiri hagvöxt en gert hafði verið ráð fyrir en voru einnig sammála um að samsetning hagvaxtar væri óhagstæðari en spáð var í nóvember. Einkum vegna þess að áfram hægði á vexti útflutnings en innlend eftirspurn ykist hraðar og að þróunin skýrðist af meiri slaka í opinberum fjármálum en gert hafði verið ráð fyrir.

Þá var nefndin einnig sammála um að verðbólguhorfur hefðu lítið breyst og að með hækkandi hagvexti í Evrópu yrði líklegt að innflutt verðhjöðnun yrði minni en verið hefði undanfarin misseri.

Loks var nefndin sammála um að horfur væru á áframhaldandi spennu í þjóðarbúskapnum sem kallaði á peningalegt aðhald. Aðhaldið þurfi að vera meira en ella slakni á aðhaldi í ríkisfjármálum á næsta ári miðað við það sem gert var ráð fyrir í nóvember.