Allir nefndarmenn í peningamálastefnunefnd Seðlabanka Íslands voru sammála um að ekki væri ástæða til að breyta vöxtum við síðustu vaxtaákvörðun nefndarinnar á fundi hennar 3. og 4. október síðastliðinn.

Lítil áhrif af skekkju Hagstofunnar

Kemur þetta fram í fundargerð nefndarinnar sem birt var í dag. Þar kemur jafnframt fram að verðbólguhorfur hefðu lítið breyst frá spá bankans í ágúst, þrátt fyrir leiðréttingu á skekkju í verðbólgumælingum Hagstofu Íslands á tímabilinu mars til ágúst síðastliðinn.

Þó hækkun vísitölunnar hefði verið meiri en búist var við vegna leiðréttingarinnar var hún innan 50% óvissumats spárinnar og einnig var bent á að gengi krónunnar hefði hækkað enn frekar en gert var ráð fyrir í spánni.

Verðbólguvæntingar lækka

„Nefndarmenn töldu jafnframt jákvætt að verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja hefðu lækkað verulega frá síðasta fundi. Nefndarmenn veittu því einnig athygli að ofspá Seðlabankans á verðbólgu á öðrum og þriðja ársfjórðungi í spánum sem birtar voru á fyrri hluta ársins hefði reynst minni en áður var talið,“ segir í fundargerðinni.

„Jafnframt var bent á að hefði verðbólga verið rétt mæld hefði hún ekki farið niður fyrir 1% fráviksmörk verðbólgumarkmiðsins í ágúst og Seðlabankinn því ekki þurft að senda ríkisstjórninni sérstaka greinargerð vegna fráviksins.“

Nefndarmenn sem sátu fundinn

Fyrir utan fjölmarga starfsmenn Seðlabankans sem sátu hluta fundarins sátu eftirfarandi nefndarmenn fundinn:

  • Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar
  • Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri
  • Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur
  • Gylfi Zoëga, prófessor, utanaðkomandi nefndarmaður
  • Katrín Ólafsdóttir, lektor, utanaðkomandi nefndarmaður