Íslendingum sem telja erlenda ferðamenn hafa neikvæð áhrif hér á landi fjölgar ört, á það sérstaklega við um áhrif á náttúru landsins og á miðborgina.

Fjölgar þeim sem telja ferðamennina hafa neikvæð áhrif um 13 prósentustig milli ára, og eru þeir nú 64% svarenda.

Landsbyggðarbúar jákvæðari

Mikill munur er á afstöðu fólks milli íbúa á landsbyggðinni og á höfuðborgarbúa. Meiri jákvæðni er meðal landsbyggðarbúa, telja um 20,3% þeirra að erlendu ferðamennirnir hafi jákvæð áhrif á náttúru landsins, en einungis 13,6% höfuðborgarbúa telja svo vera. Meðaltalið er 16%.

Hins vegar telja langflestir Íslendinga, eða 89,7%, að erlendir ferðamenn hafi jákvæð áhrif á efnahag landsins, og á atvinnutækifæri, eða 78,3% þeirra.

Þeir elstu jákvæðari en Píratar og stuðningsmenn Viðreisnar neikvæðari

Jafnframt er elsti aldurshópurinn, 68 ára og eldri, jákvæðari gagnvart áhrifum erlendra ferðamanna á miðborgina en aðrir hópar, eða um 67,3% þeirra meðan ánægja hinna hópanna var kringum 50%.

Einnig sést munur eftir því hvaða flokka fólk styður, en stuðningsfólk Pírata og Viðreisnar var töluvert ólíklegra, eða um 49,9% fyrir Pírata og 44,5% fyrir Viðreisn, til að telja að erlendir ferðamenn hefðu jákvæð áhrif á miðborg Reykjavíkur en annarra flokka, þar sem stuðningurinn var um og yfir 60%.

Könnunin var framkvæmd milli 22. og 29. ágúst, 949 einstaklingar svöruðu spurningunni sem beint var til einstaklinga 18 ára eldri.