Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir nú þegar vera kominn upp skortur á bílastæðum við ákveðnar götur í Úlfarsárdalshverfi sem nýsamþykktar breytingar á deiliskipulagi hverfisins muni auka á.

Vandinn sé þegar til staðar þó enn séu þær ekki fullbyggðar en hann bendir á að ákvörðun meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna um að breyta sérbýlislóðum í fjölbýlislóðir muni auka enn á vandann.

„Slík breyting er gegn vilja fjölmargra íbúa sem völdu sér búsetu í hverfinu á grundvelli núverandi deiliskipulags og hafa byggt og hannað hús sín út frá því,“ segir Kjartan.

„Þessir íbúar fjárfestu í dýrum lóðum í trausti þess að farið yrði eftir ákveðnu skipulagi við uppbyggingu í hverfinu en því yrði ekki breytt eftir á eins og nú er verið að gera. Ljóst er að bílaumferð eykst með fjölgun íbúða en bílastæðum er hins vegar ekki fjölgað í samræmi við það.“

Sjálfstæðismenn vilja fjölga lóðum með stækkun hverfisins

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti bókun við ákvörðun meirihlutans þar sem kom fram vilji til að Úlfarsárdalshverfi verði stækkað með nýrri byggð vestan Mímisbrunns, það er milli núverandi byggðar og Bauhaus.

Þessu hafnaði meirihlutinn, en Kjartan bendir á að nauðsynlegt sé að stækka hverfið til að hvort tveggja draga úr lóðaskorti og tryggja þjónustu í hverfinu sem enn er minni en lofað var þegar núverandi íbúar keyptu þar lóðir.

Hér eftir fer bókun borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í heild:

„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að rétt sé að stækka Úlfarsárdalshverfi meira en fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga kveður á um eins og þeir hafa ítrekað flutt tillögur um. Slík stækkun getur vel átt sér stað með skipulagningu nýrrar byggðar vestur af Mímisbrunni.

Þess í stað kýs meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna að fjölga íbúðum inni í hverfinu með því að breyta sérbýlislóðum í fjölbýlishúsalóðir. Slíkt er gegn vilja fjölmargra núverandi íbúa, sem völdu sér búsetu þar á grundvelli núverandi deiliskipulags og hafa byggt og hannað hús sín út frá því.

Ekki er samræmi milli fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu og draga að skipulagslýsingu ásamt lýsingu á fyrirhuguðum deiliskipulagsbreytingu, sem fulltrúar Reykjavíkurborgar kynntu á íbúafundi í Dalskóla 3. nóvember 2016. Í fyrirliggjandi tillögu er langt gengið í því skyni að koma til móts við óskir lóðarhafa um breytingar úr sérbýli í fjölbýli.

Með þessu er þrengt verulega að núverandi íbúum sem margir hverjir keyptu lóðir á háu verði á grundvelli núverandi deiliskipulags í trausti þess að farið yrði eftir því. Ljóst er að bílaumferð eykst með fjölgun íbúða en bílastæðum er hins vegar ekki fjölgað í samræmi við það. Nú þegar eru bílastæðavandamál við ákveðnar götur í Úlfarsárdal þrátt fyrir að þær séu ekki fullbyggðar.

Þá er gerð athugasemd við breytingar á umferðarskipulagi, t.d. að gatnamótum Urðarbrunns og Skyggnisbrautar sé breytt úr hringtorgi í kross gatnamót og flæði umferðar og öryggi við Sögutorg á gatnamótum  Úlfarsbrautar og Urðarbrunns.“

Bókun Framsóknar og flugvallarvina við sama tækifæri hljóðaði svo:

„Nú eru liðin rúm 2 ár síðan Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram tillöguna að skipulag Úlfarsárdals yrði endurskoðað svo hægt væri að fjölga þar íbúðum og úthluta lóðum. Þessi vinna hefur tekið alltof langan tíma og íbúðirnar eru of fáar en einungis er verið að fjölga þeim um 450. Framsókn og flugvallarvinir hafa ítrekað bent á að fjölga þurfi íbúðum í Úlfarsárdal m.a. fyrir ofan Mímisbrunn."