Afar athyglisverð umfjöllun er birt á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sem lýtur að fræðslumálum í íslenskum sjávarútvegi. Skólahald á vegum fyrirtækisins hefur dafnað á síðastliðnum fimm árum og nær nú til Austurlands alls, og er fyrirmynd skólahalds á Norðurlandi.

Skóli stofnaður 2013

Í umfjölluninni er greint frá því að sumarið 2013 stofnaði Síldarvinnslan sjávarútvegsskóla í Neskaupstað og var tilgangur skólans að bjóða ungmennum upp á fræðslu um sjávarútveg. Skólinn var starfræktur í samvinnu við Vinnuskóla Fjarðabyggðar og fengu nemendur greidd laun á meðan á skólavistinni stóð. Mikill áhugi reyndist vera fyrir skólastarfinu og árið 2014 hófu önnur sjávarútvegsfyrirtæki í Fjarðabyggð að taka þátt í starfsemi hans. Þá breyttist nafn skólans úr Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar í Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar. Árið 2015 bættust síðan fleiri fyrirtæki á Austurlandi í hóp þeirra sem stóðu að skólanum og Sjávarútvegsskóli Austurlands varð til.

Umfjöllun heimasíðu Síldarvinnslunnar fer hér á eftir, en millifyrirsagnir eru Fiskifrétta:

Háskóli kemur til skjalanna

Á árinu 2015 hófust viðræður við sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri um að hún tæki að sér starfsemi Sjávarútvegsskólans enda var hún orðin allumfangsmikil. Þeim viðræðum lyktaði með því að skrifað var undir samstarfssamning á milli Háskólans og sex fyrirtækja á Austurlandi á vormánuðum 2016. Fyrirtækin voru Síldarvinnslan, Loðnuvinnslan, Eskja, Gullberg, HB-Grandi og Skinney-Þinganes. Frá þessum tíma hefur sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri annast starfsemi Sjávarútvegsskóla Austurlands og reyndar hefur Sjávarútvegsskóla að austfirskri fyrirmynd einnig verið komið á fót á Norðurlandi. Því má segja að Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar sem stofnaður var 2013 hafi svo sannarlega skotið rótum víða.

Sl. föstudag lauk kennslu í Sjávarútvegsskólanum í Neskaupstað en hún hafði þá staðið yfir í eina viku. Nemendur í Neskaupstað voru 13 talsins en kennarar voru Magnús Víðisson sjávarútvegsfræðingur og Kristín Axelsdóttir nemi í sjávarútvegsfræðum. Kennsla í skólanum hefur þegar farið fram á Vopnafirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði og þessa viku er kennt á Eskifirði. Þess skal getið að nemendur frá Fljótsdalshéraði sóttu kennslu á Seyðisfjörð og nemendur frá Reyðarfirði og Stöðvarfirði á Fáskrúðsfjörð. Að auki hefur kennsla farið fram á Akureyri, Húsavík og Dalvík á vegum Sjávarútvegsskóla Norðurlands en sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri sér einnig um skólahaldið þar.

Nemendur í ár nálægt 200

Heimasíðan ræddi við þau Magnús og Kristínu að loknu skólahaldinu í Neskaupstað og kom fram hjá þeim að kennslan fyrir austan gengi mjög vel. Sögðu þau að vel væri tekið á mót þeim á öllum kennslustöðum, samstarfsfyrirtækin sinntu skólanum vel og nemendurnir væru áhugasamir. Töluðu þau bæði um að það væri gefandi að fá tækifæri til að sinna kennslu í Sjávarútvegsskólanum og þau nytu þess að kynnast sjávarútvegi í mörgum byggðarlögum og byggðarlögunum sjálfum. Í samtalinu var upplýst að á milli 70 og 80 nemendur myndu sækja skólann á Austurlandi í ár og um 120 á Norðurlandi. Bæði Magnús og Kristín töldu líklegt að þau myndu sækjast eftir kennslu við skólann næsta sumar og þá kæmi fengin kennslureynsla að góðum notum.