Háskólinn í Reykjavík stofnaði nýlega rannsóknarsetur á sviði fjártækni. Setrið heyrir undir tölvunarfræðideild, en hugsunin er að starfsemin verði þverfagleg með tíð og tíma, auk þess að vera í góðum tengslum við atvinnulífið.

Sem stendur koma þrír nemendur að verkefninu, en hugsunin er að þeir verði fleiri þegar fram líða stundir. „Þetta byrjaði með því að við réðum til okkar þessa þrjá nemendur, sem voru valdir vegna framúrskarandi árangurs í tölvunarfræði. Seinna meir kannski spyrst þetta út og fleiri fara að sýna þessu áhuga,“ segir Kolbrún Eir Óskarsdóttir, verkefnastjóri hins nýstofnaða seturs.

Kolbrún segir eitt af markmiðunum með stofnun þess vera að beina athygli hinna ýmsu deilda háskólans að þeirri miklu framþróun sem er að verða á sviði fjártækni, og fá þær til að skoða hana í sameiningu. „Rannsóknarsetrið var stofnað núna í lok sumars, og heyrir undir tölvunarfræðideildina, en hinar deildir skólans koma líka að þessu. Starfið er ekki orðið þverfaglegt ennþá, en aðrar deildir hafa nú þegar sýnt þessu áhuga. Svo erum við að vonast til að fá lögfræðideildina með inn í þetta líka, því þetta á ekki síður heima þar.“

Tenging við atvinnulífið og sandkassi fyrir nemendur
Annað af markmiðum setursins er að tengja skólann við fjármálageirann á sviði fjártækni, og þá að fá samstarfsaðila inn í setrið, en Íslandsbanki hefur nú þegar hafið samstarf við setrið. „Þeir hafa nú þegar kynnt þrjú verkefni sem þeir vilja að nemendur reyni að finna lausn á. Nú í byrjun janúar mun koma í ljós hvaða nemendur taka hvaða verkefni að sér.“

Auk ofangreindra markmiða er hugsunin að skapa vettvang fyrir nemendur til að gera tilraunir, án þeirrar arðsemiskröfu og álags sem fylgir slíku starfi á hinum almenna vinnumarkaði. „Nemendur munu geta spreytt sig aðeins án þess að vera dæmdir eða þeim refsað ef þeim mistekst. Þetta er svona svokallaður sandkassi (e. sandbox). Þú ert bara að prófa þig áfram og ef kastalinn hrynur þá bara byggirðu annan. Mistök hafa ekki sömu afleiðingar og á vinnumarkaðnum. Þar gætirðu hreinlega misst vinnuna.“

Bálkakeðjan í aðalhlutverki
Sérstök áhersla verður lögð á hina svokölluðu bálkakeðju (e. blockchain). „Planið núna er að hafa þessa þrjá nemendur til að vinna með einhverjar lausnir, til dæmis á sviði bálkakeðja,“ segir hún, en sett hefur verið upp tölva með forriti sem kallast IBM hyperledger, sem er opinn hugbúnaður sem komið var á fót af tæknirisunum IBM og Intel, ásamt fleirum, árið 2015 í því skyni að styðja við þróun dreifðra færsluskráa (e. distributed ledger) sem byggðar eru á bálkakeðjutækni. „Í staðinn fyrir að byrja frá grunni þá geturðu sótt þennan hugbúnað og byggt síðan ofan á hann. Þarna geta nemendur því leikið sér, prófað sig áfram og þróað eitthvað.“

Sem dæmi um möguleika bálkakeðjunnar nefnir Kolbrún rekjanlega vöru, til dæmis landbúnaðarafurðir. „Rekjanleikinn byrjar þá hjá framleiðanda, svo fer þetta í bíl þar sem hitastigið þarf að vera rétt, og er þá skráð, og þar fram eftir götunum. Þannig er hægt að rekja hvar í ferlinu eitthvað fór úrskeiðis og hvað, ef varan skilar sér ekki í tilætluðu ástandi. Annað sem er verið að skoða eru tímamerkingar (e. timestamps), sem til dæmis gætu nýst við að halda utan um þinglýsingar. Ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær það verður gert,“ segir hún að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .