Ný sjónvarpsveita á vegum Apple verður opnuð þann 25. mars nk. þar sem boðið verður upp á sjónvarpsefni frá öðrum aðilum á borð við CBS og Starz. Hins vegar hefur það vakið athygli að efni frá sjónvarpsveitunni og framleiðandanum Netflix verður ekki í boði á Apple-veitunni. Frá þessu er greint á fréttavef Bloomberg .

Reed Hasting, framkvæmdastjóri Netflix, staðfesti þetta á blaðamannafundi síðastliðinn mánudag og bar því við að félagið vildi að fólk horfði á efni þess í gegnum Netflix-veituna.

Ákvörðun Netflix er sögð til marks um að samkeppni milli sjónvarpsveita muni aukast hratt á þessu ári, en auk Apple hyggst Disney einnig opna nýja sjónvarpsveitu á næstunni.